Stór hópur nemenda í sjöunda bekk Hraunvallaskóla og Skarðhlíðaskóla var veðurtepptur í skólabúðum Reykjaskóla í Hrútafirði í rafmagnsleysi í tæpa tvo sólarhringa. Hiti fór einnig af einni byggingunni.

Rafmagn sló út klukkan þrjú á þriðjudag og kom aftur á í morgun eftir mikla vinnu í nótt við að spennusetja virkið í Hrútatungu. Búið er að ryðja vegi og komast börnin heim á morgun eftir spennandi og lærdómsríka reynslu.

„Þetta er pínu erfitt þegar við erum með svona stóran hóp en við erum með ákveðið skipulag þegar svona kemur upp á þó þetta hafi aldrei gerst áður,“ segir Karl B. Örvarsson en hann hefur rekið og starfað við Skólabúðirnar frá árinu 2001 ásamt konu sinni Halldóru Árnadóttir.

„Þegar við fluttum börn á milli bygginga þá mynduðum við keðju saman og allir héldust í hendur.“
Mynd/Karl B. Örvarsson

Foreldrar höfðu meiri áhyggjur en nemendur

Um er að ræða 85 nemendur, 93 einstaklinga með kennurum, sem eru í skólabúðunum.

„Við héldum börnunum inni í sitt hvoru húsinu. Enginn fór út. Hér sást ekki milli augna og ekki möguleiki að fara lönd né strönd. Þegar við fluttum börn á milli bygginga þá mynduðum við keðju saman og allir héldust í hendur.“

Karl segir að krökkunum hafi fundist spennandi að vera veðurtepptir í rafmagnsleysi þótt það hafi tekið á. Sáralítið símasamband var og ekkert net þegar sló út. Sem betur fer voru allir nemendur með vasaljós á sér sem þau voru beðin um að taka með sér, ekki vegna möguleika á rafmagnsleysi, heldur fyrir verkefni á Byggðasafninu.

„Það gekk allt svakalega vel. Nú getum við klárað vikuna með stæl. Þau fara heim á morgun og geta dregið þessa viku upp úr minningarbankanum síðar.“

Karl segir að áhyggjufullir foreldrar hafi reynt að ná sambandi við kennara og nemendur en að þau mættu vera stolt af börnum sínum sem höguðu sér prýðilega og unnu vel saman.

„Foreldrar höfðu auðvitað meiri áhyggjur af þessu en nemendurnir. Símasambandsleysi getur verið svo skelfilegt.“

Kveikt var á kertum og haldin kvöldvaka í Reykjaskóla.
Mynd/Karl B. Örvarsson

Dísilvél notuð til að hita upp Ólafshús

Hiti fór af á svæðinu en til allrar lukku var varaaflsstöð með dísilvél á svæðinu og var því hægt að hita upp Ólafshús. „Þetta eru náttúruhamfarir sem ganga yfir og það er heppilegt að það hafi ekki verið slys,“ segir Karl.

Haldnar voru kvöldvökur fyrsta og annað kvöldið í rafmagnsleysinu. Enn var smá rafmagn á einni tölvu og var því að spila mynd. Börnin voru öll til fyrirmyndar að sögn Karls og fóru snemma að sofa.

Sumir nemendur áttu erfitt með að að venjast aðstæðunum og áttuðu sig ekki á því hvers vegna það væri ekki hægt að kveikja á rafmagninu með því að fikta í rafmagnstöflunni. Kennararnir útskýrðu fyrir þeim hvað hefði skeð og að nú væri mikilvægt að fara varlega í myrkrinu.

„Þau höfðu aldrei upplifað svona rafmagnsleysi og við þurftum að útskýra fyrir þeim hvernig þetta virkaði. Þau voru oft að prófa að kveikja en svo brýndum við aðallega fyrir þeim að nú yrðum við öll að standa saman og sýna mikið æðruleysi og passa okkur að slasa okkur ekki. Í slíkum aðstæðum er ekki hægt að komast til læknis. Krakkarnir fara upp til hópa alltaf eftir reglum þegar maður talar við þau á jafningjagrundvelli,“ segir Karl.

Í kvöld endar dagskráin með húllumhæ; hárgreiðslukeppni og diskói.

Vinstra megin sést Ólafshús.
Mynd/Karl B. Örvarsson