Í gær greindust 84 með veiruna innanlands en þetta kemur fram á covid.is. Smitum fjölgar þannig milli daga en í fyrradag greindust 60 með veiruna. Af þeim sem greindust voru 72 með einkenni en 12 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. 48 voru utan sóttkvíar við greiningu.

Alls eru nú 908 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um rúmlega 20 milli daga. Þá fækkar einnig í sóttkví um tæplega 150 en 1.358 eru nú í sóttkví. Svipaður fjöldi sýna var tekinn innanlands í gær og í fyrradag, eða ríflega þrjú þúsund.

Smitum á landamærunum fækkar aftur á móti milli daga en fjórir greindust þar í gær, þar af þrír með virkt smit, en beðið er mótefnamælingar úr einu sýni. Tæplega 1.100 sýni voru tekin við landamærin í gær og eru nú 930 í skimunarsóttkví.

Á Landspítala eru nú 18 inniliggjandi og fimm á gjörgæslu, samkvæmt covid.is. Nánari upplýsingar um stöðuna á Landspítala í dag verða birtar seinnipartinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala í gær voru þá 22 sjúklingar inniliggjandi á spítalanum og fimm á gjörgæslu, en einstaklingum á gjörgæslu fækkaði um tvo milli daga. Allir þeir sem voru á gjörgæslu þurftu á öndunarvélarstuðning að halda.

Ræða aðgerðir á morgun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi síðdegis í gær minnisblað til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um stöðu faraldursins. Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við Fréttablaðið.

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands er í gildi út föstudaginn 27. ágúst en þar er kveðið á um 200 manna samkomubann, eins metra reglu og grímuskyldu innandyra þar sem ekki er hægt að tryggja viðunandi fjarlægð.

Í samtali við Fréttablaðið eftir ríkisstjórnarfund í gær sagði Svandís í samtali við Fréttablaðið að frekari aðgerðir yrðu ræddar á sérstökum fundi ríkisstjórnarinnar á morgun, fimmtudag, og væntanlega kynntar eftir þann fund. Sagði hún við blaðamenn að það væri útlit fyrir tilslakanir.

Fréttin hefur verið uppfærð.