Um 80 prósent þingkvenna verða fyrir kynbundnu ofbeldi samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var meðal kvenna sem starfa eða hafa nýlega hætt störfum á Alþingi. Spurningarnar voru ekki lagðar fyrir karlmenn. Rannsóknin var lögð fyrir 33 konur í maí á þessu ári og var svarhlutfall 76 prósent. Niðurstöður rannsóknarinnar koma fram í nýrri bók dr. Hauks Arnþórssonar sem kemur út í dag.

80 prósent kvennanna sögðust hafa orðið fyrir sálfræðilegu ofbeldi, 28 prósent fyrir kynferðislegu ofbeldi, 24 prósent líkamlegu ofbeldi og 20,8 prósent sögðust hafa orðið fyrir efnahagslegu ofbeldi. Efnahagslegt ofbeldi er þegar konum er neitað um starfskjör eða starfsaðstöðu sem þær eiga rétt á eða ef eigur þeirra eru skemmdar.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru bornar saman við viðamikla könnun um kynbundið ofbeldi sem gerð var af Alþjóða-þingmannasambandinu í samvinnu við Evrópuráðið árið 2018. Sé tekið mið af samanburðinum má sjá að hlutfall kvenna sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi er hærra á Alþingi en á öðrum þjóðþingum Evrópu.

Meira um líkamlegt og efnahagslegt ofbeldi á Íslandi

Mestur er munurinn á líkamlegu og efnahagslegu ofbeld. Í Evrópu hafa 14,8 prósent orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, rúmum 9 prósentum minna en hér. Þegar litið er á efnahagslegt ofbeldi hafa rúmlega 7 prósentum fleiri íslenskar þingkonur orðið fyrir því en evrópskar.

Rannsóknin felur í sér fjölda annarra þátta, til dæmis kemur þar fram að konur sitji styttra á þingi en karlar, að mikill munur sé á kjósendum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu og að 63,5 prósent þingmanna séu úr efstu lögum þjóðfélagsins.