Innlendum kórónuveirusmitum fjölgaði um 76 í gær. Talsvert fleiri greindust með veiruna á landinu í gær en síðustu daga en fleiri hafa ekki greinst á einum degi í rúma viku.

Hlutfall þeirra sem voru í sóttkví við greiningu var hátt í gær eða tæplega 80 prósent. Aðeins 16 þeirra 76 sem greindust voru utan sóttkvíar.

19 eru nú inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af eru fjórir á gjörgæslu.

Alls voru 1.574 sýni tekin á landinu í gær auk 561 við landamærin. Það er svipaður fjöldi sýna og hefur verið tekinn undanfarna daga. Af þeim 76 sem greindust í gær sýndu 57 einkenni en hinir 19 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun.

Færri í einangrun og sóttkví

Þrátt fyrir mikinn fjölda nýrra smita fækkar þeim verulega sem eru í einangrun og sóttkví á landinu síðan í gær. Alls eru nú 1.081 í einangrun en þeir voru 1.110 í gær og þá eru 1.979 í sóttkví í dag miðað við 2.452 í gær.

Nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú 227,7 - örlítið minna en í gær þegar það var 230,7.

Áfram smit við landamærin

Áfram greinast smit við landamærin í nokkrum mæli en í gær greindust þar 4 smit. Þegar hefur verið staðfest að þrjú þeirra séu virk en enn er beðið eftir mótefnamælingu frá einu. Einnig er ekki enn ljóst hvort fjórir aðrir sem greindust við landamærin á miðvikudag og fimmtudag séu með mótefni við veirunni.

Nýgengi landamærasmita er örlítið meira í dag en í gær; nú 23,3 en var 22,4 í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.