Langur vinnu­tími verður um 750 þúsund manns að bana á ári hverju sam­kvæmt nýrri rann­sókn á vegum Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar. Rann­sóknin er sú fyrsta af sínu tagi í heiminum að því er fram kemur í frétt BBC.

Niður­stöður sýna fram á að fólk sem vinnur yfir 55 klukku­tíma vinnu­viku er 35 prósent lík­legra til að fá heila­blóð­fall og 17 prósent lík­legra til að deyja úr hjarta­sjúk­dómum miðað við fólk sem vinnur 35 til 40 tíma á viku.

Ban­væn streita og álag

Sjúk­dómana má rekja til streitu og á­lags sem fylgir yfir­vinnu að mati rann­sóknar­manna. Fram kemur að árið 2016 hafi um 398 þúsund manns dáið úr heila­blóð­falli og 355 þúsund úr hjarta­á­falli og öðrum hjarta­sjúk­dómum og voru öll dauðs­föllin rakin til of langrar vinnu­viku.

Á síðast­liðnum sex­tán árum hafa dauðs­föll vegna hjarta­sjúk­dóma aukist um 42 prósent og 19 prósent aukning hefur verið á ban­vænum heila­blóð­föllum.

Eldra fólk í aukinni hættu

Langur vinnu­tími er sam­kvæmt rann­sókninni mun al­gengari í Suður- og Suð­austur Asíu en annars staðar í heiminum. Þá bitnar yfir­vinna í meira mæli á eldra fólki sem þolir langar vinnu­vikur verr en yngra fólk.

Flest dauðs­föll sem rekja mátti til mikillar yfir­vinnu voru meðal fólks á aldrinum 60 til 79 ára og al­mennt hafði vinnu­tími meiri á­hrif á fólk á aldrinum 45 til 74 ára en þau sem voru yngri.

Vinna meira í far­aldrinum

Rann­sóknin náði ekki yfir tíma­bil far­aldursins en full­trúar Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar telja fjar­vinnu hafa aukið vinnu­á­lag og lengri vinnu­daga.

„Við höfum vís­bendingar sem benda til þess að þegar lönd setja á út­göngu­bann þá aukist vinnu­tími fólks um tíu prósent,“ benti tækni­stjóri Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar á. Far­aldurinn hafi því orðið til þess að margir vinni nú lengur en heil­brigt er.