Mikill meiri­hluti starfs­manna Mennta­mála­stofnunar telja nauð­syn­legt að for­stjóri stofnunarinnar Arnór Guð­munds­son víki frá. Þetta kemur fram í á­lyktun sem send var Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytinu í gær og Frétta­blaðið hefur undir höndum.

Frétta­blaðið greindi í morgun frá bráða­birgða­niður­stöðum á­hættu­mats sem mann­auðs­fyrir­tækið Auðnast fram­kvæmdi á starf­semi MMS að beiðni ráðu­neytisins. Í matinu kemur meðal annars fram að stjórnar­hættir innan stofnunarinnar hafi skapað „ó­æski­legan starfs­anda sem ógnar öryggi og heilsu starfs­fólks“.

Í á­lyktuninni kemur þar að auki fram að starf­menn MMS telji á­hættu­matið „gefa góða mynd af því á­standi sem starfs­fólk hefur upp­lifað“. Niður­stöður þess sýni að nauð­syn­legt sé að hefja strax vinnu við að byggja innri starf­semi stofnunarinnar upp.

Á­lyktunin var unnin í kjöl­far fundar þann 4. nóvember þar sem niður­stöður á­hættu­mats Auðnast voru kynntar starfs­fólki MMS. Alls vinna 56 starfs­menn hjá stofnuninni og af þeim sóttu 37 fundinn og greiddu fimm at­kvæði utan kjör­fundar. Á­lyktunin var sam­þykkt af 83,3 prósent þeirra sem greiddu at­kvæði eða 62,5 prósent af heildar­fjölda starfs­manna stofnunarinnar.

Segja á­standið hafa versnað mikið

Þá hafa trúnaðar­menn MMS einnig sent frá sér minnis­blað stílað á Arnór Guð­munds­son, for­stjóra, og Pál Magnús­son, ráðu­neytis­stjóra Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins, sem borist hefur Frétta­blaðinu.

Í minnis­blaðinu, sem dag­sett er 3. nóvember, kemur fram að á­standið í stofnuninni hafi „versnað mikið undan­farnar vikur og höfum við trúnaðar­menn ekki farið var­hluta af því“.

Þar segir enn fremur að starfs­fólk hafi í auknu mæli leitað til trúnaðar­manna vegna „van­líðanar og ó­öryggis vegna þrúgandi vinnu­um­hverfis“ og telji þeir það skyldu sína að vekja at­hygli á stöðunni. Trúnaðar­menn hvetja for­stjóra og ráðu­neytis­stjóra til að „gera við­eig­andi ráð­stafanir svo færa megi vinnu­um­hverfið til betri vegar sem fyrst“.

Fréttin var uppfærð kl. 15:15. Áður kom fram að 75 prósent starfsmanna MMS hefðu greitt atkvæði með ályktuninni en rétt hlutfall er 62,5 prósent starfsmanna.