Heildar­út­gjöld um­hverfis­mála árið 2023 eru á­ætluð 27.869 milljónir króna og aukast um 2.185 milljónir á föstu verð­lagi fjár­laga 2022, eða sem svarar til 8,8 prósent en stærstu hluti fjár­magnsins fellur í flokk stjórn­sýslu og um­hverfis­mála þar sem fjallað er um lofts­lags­mál. Undir þennan mála­flokk falla fjár­heimildir til lofts­lags­að­gerða, loft­mengunar­mála og til lofts­lags­sjóðs. Um­fangs­mestu verk­efni á sviði lofts­lags­mála eru stefnu­mótun og eftir­fylgni fyrir kol­efnis­hlut­laust Ís­land, að­gerða­á­ætlun í lofts­lags­málum sem snýr að sam­drætti í losun og að­gerða­á­ætlun vegna að­lögunar ís­lensks sam­fé­lags að á­hrifum lofts­lags­breytinga

Þar á til dæmis að auka fjár­heimild um 800 milljónir króna á árinu vegna kaupa á losunar­heimildum í tengslum við skuld­bindingar sam­kvæmt Kýótó-bókun auk þess sem það á að auka fjár­heimild mála­flokksins 740 milljónir en þar af eru 500 milljónir ætlaðar til bindingar og sam­dráttar í losun gróður­húsa­loft­tegunda og annarra lofts­lags­að­gerða.

Þá á að verja 90 milljónum í náttúru­miðaðar lausnir í lofts­lags­málum og 150 milljónir í önnur lofts­lags­tengd verk­efni.

Innan flokksins er einnig fjallað um úr­gangs­mál, náttúru­vernd og skóg­rækt og það kemur einnig fram að það eigi að verja 200 milljónum króna í að bæta á­stand á­fanga­staða innan náttúru­verndar­svæða og þjónustu á þeim. Þá á að verja 21 milljón í fugl­vöktun en fjár­fram­lög til flokksins rann­sóknir og vöktun á náttúru Ís­lands lækka þó um 177 milljónir króna en um var að ræða tíma­bundið fjár­festingar­fram­lag til Veður­stofunnar til úr­bóta á inn­viðum í kjöl­far ó­veðurs í desember árið 2019.

Nánar er hægt að kynna sér út­gjalda­lið í um­hverfis­málum í fjár­laga­frum­varpinu hér.