Stofnanir dómsmálaráðuneytisins hafa greitt samtals 74 milljónir króna í starfslokasamninga á undanförnum sjö árum. Þá hafa rúmar níu milljónir króna verið greiddar vegna þriggja ólögmætra uppsagna á sama tímabili.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins.
Fyrirspurn Birgis var tvíþætt:
- Hversu oft á undanförnum sjö árum hefur ráðuneytið eða stofnanir þess greitt bætur fyrir ólögmætar uppsagnir starfsmanna vegna annars vegar dómsmála, sátta fyrir dómstólum og sáttamála hjá ríkislögmanni og hins vegar annars konar sáttar eða samkomulags?
- Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir undanfarin sjö ár í ráðuneytinu annars vegar og stofnunum ráðuneytisins hins vegar? Hver var árleg heildarfjárhæð í hverjum flokki uppgjörs fyrir sig?
Í svarinu kemur fram að ráðuneytið sem slíkt hafi ekki greitt neinar bætur eða innt af hendi greiðslur vegna starfslokasamninga. Stofnanir ráðuneytisins hafa hins vegar greitt bætur vegna þriggja ólögmætra uppsagna á þessu tímabili, samtals 9.166.720 krónur. 74 milljónir króna hafa verið greiddar vegna átta starfslokasamninga. Svarið er ekki sundurliðið eftir stofnunum.
Birgir spurði Áslaugu einnig um ábyrgð forstöðumanna sem segja starfsmanni upp á ólögmætan hátt og valda þannig ríkissjóði tjóni.
„Í þeim tilvikum þar sem fallist hefur verið á bótaskyldu vegna uppsagnar hefur kröfu um slíkt verið beint að ríkinu, sem vinnuveitanda, en ekki forstöðumanninum persónulega. Ábyrgð ríkisins á greiðslu bóta byggist á óskráðri grundvallarreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð sem gildir almennt um opinbera aðila líkt og einkaaðila. Ekki hefur komið til þess svo vitað sé að ráðuneytið eða stofnanir þess hafi endurkrafið forstöðumann um greiddar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar starfsmanns,“ segir í svari ráðherra.