Stofnanir dóms­mála­ráðu­neytisins hafa greitt sam­tals 74 milljónir króna í starfs­loka­samninga á undan­förnum sjö árum. Þá hafa rúmar níu milljónir króna verið greiddar vegna þriggja ó­lög­mætra upp­sagna á sama tíma­bili.

Þetta kemur fram í svari Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra við fyrir­spurn Birgis Þórarins­sonar, þing­manns Mið­flokksins.

Fyrir­spurn Birgis var tví­þætt:

  1. Hversu oft á undan­förnum sjö árum hefur ráðu­neytið eða stofnanir þess greitt bætur fyrir ó­lög­mætar upp­sagnir starfs­manna vegna annars vegar dóms­mála, sátta fyrir dóm­stólum og sátta­mála hjá ríkis­lög­manni og hins vegar annars konar sáttar eða sam­komu­lags?
  2. Hversu margir starfs­loka­samningar hafa verið gerðir undan­farin sjö ár í ráðu­neytinu annars vegar og stofnunum ráðu­neytisins hins vegar? Hver var ár­leg heildar­fjár­hæð í hverjum flokki upp­gjörs fyrir sig?

Í svarinu kemur fram að ráðu­neytið sem slíkt hafi ekki greitt neinar bætur eða innt af hendi greiðslur vegna starfs­loka­samninga. Stofnanir ráðu­neytisins hafa hins vegar greitt bætur vegna þriggja ó­lög­mætra upp­sagna á þessu tíma­bili, sam­tals 9.166.720 krónur. 74 milljónir króna hafa verið greiddar vegna átta starfs­loka­samninga. Svarið er ekki sundur­liðið eftir stofnunum.

Birgir spurði Ás­laugu einnig um á­byrgð for­stöðu­manna sem segja starfs­manni upp á ó­lög­mætan hátt og valda þannig ríkis­sjóði tjóni.

„Í þeim til­vikum þar sem fallist hefur verið á bóta­skyldu vegna upp­sagnar hefur kröfu um slíkt verið beint að ríkinu, sem vinnu­veitanda, en ekki for­stöðu­manninum per­sónu­lega. Á­byrgð ríkisins á greiðslu bóta byggist á ó­skráðri grund­vallar­reglu skaða­bóta­réttar um vinnu­veit­enda­á­byrgð sem gildir al­mennt um opin­bera aðila líkt og einka­aðila. Ekki hefur komið til þess svo vitað sé að ráðu­neytið eða stofnanir þess hafi endur­krafið for­stöðu­mann um greiddar bætur vegna ó­lög­mætrar upp­sagnar starfs­manns,“ segir í svari ráð­herra.