Alls eru um 73 prósent þeirra sem eru á skattgrunnskrá, það er þau sem eiga að skila skattframtali í ár, búin að skila sínu framtali í ár. Frestur til að skila framtali rann út síðasta föstudag en enginn viðbótarfrestur var í ár. Skatturinn hvatti fólk, fyrir helgi, til að skila framtölum sínum eins fljótt og hægt er, ef þau gátu ekki skilað á föstudag.

Að sögn Elínar Ölmu Arthursdóttur, vararíkisskattstjóra, hafa skilin gengið vel hjá fólki í ár.

„Skilin eru mjög svipuð og var í fyrra. Alltaf er eitthvað um að ekki sé skilað fyrir álagningu og menn fái þá áætlun. Til að koma í veg fyrir það er um að gera að drífa sig og skila skattframtali þótt almennur frestur sé liðinni. Því fyrr því betra,“ segir Elín Alma.

Hún segir að það séu þó margir sem skili í gegnum fagaðila, það er endurskoðendur, bókara eða annað slíkt og að þau sem geri það hafi frest til að skila fram eftir apríl samkvæmt samkomulagi á milli Skattsins og fagaðila.

„Þannig sýnist mér að þetta hafi allt saman gengið ágætlega hingað til og gera megi ráð fyrir að heildarskil verði með svipuðum hætti og verið hefur,“ segir Elín Alma að lokum.