Heil­brigðis­ráðu­neyti Líbanon til­kynnti á tíunda tímanum í kvöld að minnst 78 hefðu látist af völdum tveggja sprenginga sem ollu gífur­legu tjóni í Beirut fyrr í dag.

Nærri fjögur þúsund manns særðust í sprengingunni en talið er að talan gæti verið mun hærri.

Gler­brot flugu í sjúk­linga

Sjúkra­hús í Beirút hafa þurft að vísa særðum frá þar sem allar stofur eru yfir­­fullar og starfs­­fólk hefur ekki undan því að sinna sjúk­lingum. Raðir hafa myndast við sjúkra­hús og á myndum sést fólk liggja í blóði sínu á gang­stéttum borgarinnar.

Eitt af sjúkra­húsum borgarinnar, St. Geor­ge, varð einnig fyrir á­hrifum sprengingarinnar og splundruðust rúður hússins og lentu í nær­liggjandi sjúk­lingum, meðal annars börnum sem voru þar í krabba­meins­með­ferð. Blaða­maður New York Times greinir frá því að tár­votir læknar í borginni væru ráð­þrota vegna á­standsins.

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, vottaði Líbönum sam­úð vegna at­burðarins á Twitter í kvöld. „Ís­lenska þjóðin vottar fjöl­skyldum sem hafa misst ást­vini og þeim þúsundum sem hafa slasast sam­úð sína. Hugur okkar er hjá líbönsku þjóðinni á þessum tímum,“ sagði Katrín á Twitter.

Enn loga eldar við hafnarsvæði Beirut.
Fréttablaðið/AFP

Hundruð heimilis­laus

Hundruð heimila eru gjör­ó­nýt og mátti sjá yfir­gefna bíla í rúst um allar götur sem lágu nærri hafnar­svæðinu þar sem sprengjan sprakk.

Högg­bylgja sprengingarinnar fannst alla leið til Kýpur sem er í 240 kíló­metra fjar­lægð og einnig mátti heyra sprenginguna í allt að 80 kíló­metra fjar­lægð frá sprengju­svæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.