„Ég vissi að hann væri svikahrappur,“ segir 73 ára gömul kona, Jean að nafni, í samtali við News 12-fréttastofuna í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að hún hafi komið óprúttnum aðila á óvart þegar hann reyndi að svíkja af henni peninga í dæmigerðu svindli á dögunum.
Allt hófst þetta í þar síðustu viku þegar Jean fékk símtal frá manni sem sagðist vera barnabarn hennar. Aumur lýsti maðurinn því að hann hefði verið tekinn fyrir ölvunarakstur og þyrfti 8.000 dollara, rétt um eina milljón króna, til að losna úr fangelsi gegn tryggingu.
Jean viðurkennir að henni hafi þótt símtalið einkennilegt, ekki síst í ljósi þess að barnabörn hennar eru öll of ung til að vera komin með bílpróf. Hún ákvað hins vegar að spila með – líka þegar meintur lögmaður hafði samband og staðfesti, að því er virtist, að 8.000 dollara þyrfti til að losa drenginn úr fangelsi.
Svo fór að Jean hafði samband við lögreglu og mættu fulltrúar hennar heim til konunnar og heyrðu sjálfir hluta af samskiptunum. Að lokum fór það svo að Jean sagðist vera með 8.000 dollara í peningum heima hjá sér og það eina sem lögmaðurinn þyrfti að gera væri að sækja peninginn.
Þegar skuggalegur náungi mætti á svæðið rétti Jean honum pakka sem í voru samanbrotnar tuskur. Þegar maðurinn gekk frá heimilinu komu svo laganna verðir og tóku hann fastan. Í ljós kom að hinn grunaði er 28 ára og verður hann ákærður fyrir tilraun til fjársvika.
Patrick Ryder, fulltrúi lögreglu, segir við bandaríska fjölmiðla að Jean hafi gert rétt með því að hafa samband við lögreglu og láta hana í málið. Tekið er fram í fréttinni að fjársvikatilraunum, sérstaklega þar sem reynt er að herja á fólk á eftirlaunaaldri, hafi fjölgað mjög á undanförnum árum.
Samkvæmt tölum FBI, sem Washington Post vitnar til, er talið að Bandaríkjamenn, 60 ára og eldri, hafi tapað einum milljarði Bandaríkjadala í sambærilegum málum árið 2020.