Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, til­kynnti í dag um tæp­lega 700 milljóna króna heildar­fram­lag Ís­lands á á­heita­ráð­stefnu um Sýr­land. Fram­lagið er til fjögurra ára og skiptist á milli á­herslu­stofnana og sjóða Ís­lands í mann­úðar- og þróunar­sam­vinnu.

„Hrika­leg átök hafa nú geisað í Sýr­landi í heilan ára­tug og er stuðningur al­þjóða­sam­fé­lagsins mikil­vægari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Guð­laugur Þór í ræðu sinni á ráð­stefnunni. „Við megum ekki líta undan.“

Í til­kynningu á vef ráðu­neytis hans kemur fram að í máli hans hafi hann einnig rætt að virðing fyrir mann­réttindum og mann­úðar­lögum væri ekki val­kvæð. Þeim bæri að fylgja undan­tekningar­laust. Þá yrðu rétt skil­yrði að vera fyrir hendi til að sýr­lenskir borgarar gætu snúið til heima­lands síns á val­frjálsan, öruggan og mann­sæmandi hátt.

13,4 milljónir þurfa á hjálp að halda

Talið er að 13,4 milljónir ein­stak­linga í Sýr­landi þurfi á mann­úðar­að­stoð að halda í ár auk þess sem að Sam­einuðu þjóðirnar vonast til að geta að­stoðað 5,6 milljónir sýr­lenskra flótta­manna í nær­liggjandi ríkjum. Ís­land er meðal þeirra sem hefur lagt sitt að mörkum við að lina þjáningar ó­breyttra borgara með fyrir­sjáan­legum fjár­stuðningi.

Á­tökin í Sýr­landi og stríðið hafa geisað í um tíu ár í ár og hafa leitt af sér miklar hörmungar. Hundruð þúsunda hafa látið lífið og yfir helmingur þjóðarinnar hefur neyðst til að flýja heimili sín og oft á tíðum heima­land sitt. Mann­úðar­á­standið fer versnandi og fleiri þurfa á að­stoð að halda í ár en nokkru sinni fyrr síðan að stríðið hófst. Má þetta meðal annars rekja til lang­varandi neyðar­á­stands, mikilla efna­hags­þrenginga og heims­far­aldurs.