Um 700 nemendur í 9. bekk lentu vandræðum í gær þegar þau ætluðu að taka samræmd próf samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun. Umboðsmaður barna segir það „algjörlega óásættanlegt“ að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf sem eru metin af skipuleggjendum sem „„algjörlega ófullnægjandi“ og kalla eftir því að menntamálaráðuneytið annað hvort tryggi fullnægjandi prófakerfi eða leggi prófin niður.
Lilja D. Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni og sagði þar að í ráðuneytinu væri í vinnslu nýtt matskerfi sem ætti að innleiða á næsta ári. Matskerfið er í kostnaðargreiningu en er hugsað til að leysa af núverandi samræmd próf. Hún tók undir áhyggjur umboðsmanns en sagði að erfitt væri að koma í veg fyrir slíkra hnökra.
„En eitthvað fór úrskeiðis og að mínu mati gengur það ekki upp. Það gengur ekki upp fyrst og síðast gagnvart nemendum,“ sagði Lilja í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Allir nemendur skóla taka próf á sama degi
Í tilkynningu frá Menntamálstofnun í gær kom fram að tæknileg vandamál hafi komið upp sem lýsti sér þannig að fjöldi nemenda átti erfitt með að komast inn eða duttu út áður en þau höfðu lokið próftökunni.
Stofnunin bað nemendur og starfsfólk afsökunar á óþægindunum og sögðu að þau væru að greina stöðuna með þjónustuaðilum sínum.
Í samráði við ráðuneytið var síðan ákveðið að fresta samræmdum könnunarprófum í stærðfræði og ensku í þessari viku. Skólum er gefinn kostur á að leggja öll þrjú samræmdu könnunarprófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá og með næsta mánudegi. Þannig hafa skólar val um hvaða próf þeir leggja fyrir og hvenær á tímabilinu 15. til 26. mars.
„Allir nemendur innan hvers skóla verða að taka sama próf á sama degi. Við þessar krefjandi aðstæður hefur ekki verið svigrúm til að eiga samráð og samtal við foreldra og nemendur en stefnt er að því næstu daga,“ segir í tilkynningunni.
Með þessu fyrirkomulagi telur Menntamálastofnun að hægt verði að leggja samræmd könnunarpróf fyrir með viðunandi hætti og skapa skólum svigrúm til að ljúka fyrirlögn þeirra án þess að mikil röskun verði á skólastarfi.