69 greindust með kórónaveirusmit í gær og voru 54 þeirra í sóttkví við greiningu eða 78 prósent en aðeins 15 greindust utan sóttkvíar.

26 sjúklingar eru áfram á spítala með COVID-19. Fjórir eru á gjörgæslu.

Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að hækka og mælist nú 291,2.

2.715 innanlandssýni voru tekin í gær. 1.403 voru tekin í einkennasýnatöku, 540 í sýnatöku á landamærum, 646 í sóttkvíar-og handahófsskimun og 126 í skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

1.242 eru nú í einangrun með virkt smit hér á landi. 2.957 eru í sóttkví og fjölgar um 134 á milli daga. 1.321 eru í skimunarsóttkví.

Andlát á Landspítala

Líkt og greint var frá í gær lést einn sjúklingur á Landspítalanum aðfaranótt föstudags. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því í samtali við RÚV að um hafi verið að ræða konu á níræðisaldri. Konan var ekki á gjörgæslu þegar hún lést. Er þetta ellefta andlátið af völdum COVID-19 hér á landi en tíu einstaklingar létu lífið völdum sjúkdómsins í fyrstu bylgju faraldursins í vor.

Faraldurinn í vexti

Faraldurinn er í miklum vexti víðast hvar í heiminum. Í gær greindist t.d. metfjöldi smita á Ítalíu, eða um 10 þúsund ný smit. Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði við HÍ segir mikla óvissu vera til staðar og að ástandið sé tvísýnt. Hann útilokar ekki að Íslendingar gætu átt von á annarri bylgju COVID-19 faraldursins.