Alls segjast tæp­lega 70 prósent Ís­lendinga hafa frekar eða mjög miklar á­hyggjur af hlýnun jarðar. Að­eins 11 prósent segjast hafa frekar eða mjög litlar á­hyggjur.

Í nýjustu könnun MMR var spurt um við­horf al­mennings til hlýnunar jarðar og hvort þau hefðu á­hyggjur af því. Á niður­stöðum má sjá að konur hafa meiri á­hyggjur en karlar, en alls sögðu 76 prósent kvenna hafa frekar eða mjög miklar á­hyggjur, saman­borið við 60 prósent karl­manna.

Elstu og yngstu hafa mestar áhyggjur

Ef litið var til aldurs höfðu mestar á­hyggjur þau í elsta og yngsta aldurs­hópnum. Í hópi þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára sögðust 77 prósent hafa frekar eða mjög miklar á­hyggjur. Af þeim sem eru 68 ára og eldri sögðu 70 prósent hafa frekar eða mikla á­hyggjur. Þar á milli voru um 64 til 65 prósent sem sögðust hafa á­hyggjur.

Þá var tals­verður munur eftir bú­setu í höfuð­borg eða á lands­byggð, en um 40 prósent höfuð­borgar­búa sögðust hafa mjög miklar á­hyggjur af hlýnun jarðar, en að­eins um 26 prósent þeirra á lands­byggðinni.

Þá virðist sem að mikill munur sé eftir því hvaða stjórn­mála­flokk það styður. Mestar á­hyggjur hafa stuðnings­fólk Sam­fylkingarinnar en alls segja 96 prósent þeirra hafa frekar eða mikla á­hyggjur. 89 prósent stuðnings­fólks Vinstri grænna hefur frekar eða miklar á­hyggjur. Minnsta á­hyggjur virðist fólk Mið­flokksins hafa, en að­eins 39 prósent þeirra hafa frekar eða miklar á­hyggjur. 30 prósent þeirra hafa mjög litlar á­hyggjur af hlýnun jarðar.

Hægt er að kynna sér nánar niður­stöður könnunar MMR hér á heima­síðu þeirra.