„Á síðasta ári fór Land­helgis­gæslan í um 280 út­köll og tvö þriðju þeirra voru vegna al­var­legra slysa eða veikinda og þriðjungur vegna björgunar­að­gerða. Það þýðir að það eru um 63% líkur á út­kalli næstu tvo daga,“ sagði Albert­ína Frið­björg Elías­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, í um­ræðum um störf þingsins á Al­þingi í dag.

Verk­fall flug­virkja hjá Land­helgis­gæslunni hefst á mið­nætti í kvöld og verður engin þyrla gæslunnar til taks vegna þess næstu tvo sólar­hringa. Málið var til um­ræðu á Al­þingi í dag þar sem þing­menn viðruðu á­hyggjur sínar af stöðunni.

Á ekki að geta gerst

„Á morgun og á föstu­dag verðum við í þeirri stöðu að hafa ekki til­tæka björgunar­þyrlu hér á landi. Í ofan­á­lag er staðan sú að vegna upp­safnaðrar við­halds­þarfar verður að­eins ein björgunar­þyrla til­tæk, a.m.k. fram að jólum. Þetta á ein­fald­lega ekki að geta gerst, herra for­seti, og mikil er á­byrgð ríkis­valdsins. Það á ekki að geta gerst að kerfið sé ekki til staðar þegar við þurfum á því að halda. Það er ekkert sem rétt­lætir það að björgunar­þyrlur séu ekki til­tækar,“ sagði Albert­ína.

Fundur samninga­nefndar flug­virkja og ríkisins nú síð­degis endaði án niður­stöðu. Aðal­steinn Leifs­son ríkis­sátta­semjari sagði í kvöld­fréttum RÚV að staðan í við­ræðunum væri al­var­leg og við­ræðurnar þungar og erfiðar.

„Staðan er þannig að hver dagur skiptir máli. Við höldum á­fram strax klukkan níu í fyrra­málið. Og ég verð að vona að okkur verði eitt­hvað á­gengt, en eins og ég segi, staðan er graf­alvar­leg og þung. Það verður setið við eins lengi og það ber árangur, svo sjáum við til með fram­haldið,“ sagði hann.

Albert­ína bætti við í ræðu sinni að það mætti kalla það kald­hæðni ör­laganna að í kvöld sé varað við fyrsta vetrar­storminum.

„Við­varanir Veður­stofunnar hafa ef­laust vakið ugg í brjósti þeirra fjöl­mörgu sem lifðu storm eftir storm síðasta vetur og óttast eðli­lega það versta. Staðan er ein­föld, herra for­seti. Þetta snýst ekki að­eins um kaup og kjör. Þetta er dauðans al­vara. Ráð­herra verður að finna lausn á þessu máli, ekki seinna en núna.“

Kallaði eftir að lög yrðu sett á verkfallið

Páll Magnús­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, kallaði eftir því að lög yrðu sett á verk­fallið fyrir mið­nætti.

„Að ná­kvæm­lega þessi þjónusta, leit og björgun, skuli leggjast af vegna vinnu­deilna er auð­vitað al­gjör­lega ó­á­sættan­legt. Það verður að gera þá skýlausu kröfu til stjórn­valda að þau höggvi á þennan hnút, ef ekki með samningum þá með laga­setningu fyrir mið­nætti í kvöld. Manns­líf geta verið í húfi og á­byrgð þeirra sem komið hafa málum í þessa stöðu er mikil,“ sagði hann.