Í gær greindust 62 með veiruna innanlands en þetta kemur fram á covid.is. Af þeim sem greindust í gær voru 35 utan sóttkvíar við greiningu.

Alls er nú 956 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um rúmlega 60 milli daga. Í sóttkví er nú 1.831 einstaklingur en þeim fækkar um tæplega 200 milli daga. Fleiri sýni voru tekin innanlands í gær heldur en í fyrradag, eða rúmlega tvö þúsund.

Við landamæraskimun greindust 11 einstaklingar, þar af þrír með virkt smit, en beðið er mótefnamælingar úr hinum átta sýnunum. Rúmlega 1.500 sýni voru tekin við landamæraskimun í gær og eru nú 970 í skimunarsóttkví.

Á Landspítala eru nú 21 inniliggjandi, einum færri en í gær, en enn eru sjö á gjörgæslu. Ekki liggur fyrir hversu margir útskrifuðust eða lögðust inn í gær.

Á föstudag greindust 69 með veiruna innanlands og voru þar 34 utan sóttkvíar við greiningu en á laugardag greindust 54 með veiruna og voru þá 23 utan sóttkvíar. Af þeim sem greindust á föstudag og laugardag voru 69 fullbólusettir en 53 óbólusettir. Um 4.600 sýni voru tekin á föstudag og laugardag.

Á landamærunum greindust tíu manns með veiruna á föstudag, þar af sex með virkt smit, en tveir með virkt smit á laugardag. Af þeim voru sex fullbólusettir en tveir óbólusettir. Nú þurfa allir sem eru með tengsl við Ísland að fara í skimun við komuna til landsins.

Bólusetningar barna hafnar

Í dag og á morgun verða börn á aldrinum 12 til 15 ára bólusett með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll en börn fædd 2006 og 2007 verða bólusett í dag. Börn fædd 2008 og börn fædd fyrir 1. september 2009 mæta síðan á morgun en börn sem verða tólf ára eftir 1. september fá boð seinna í haust.

Í síðustu viku voru ríflega 24 þúsund manns bólusettir, flestir með örvunarskammt, en þeir sem fengu Janssen í vor og sumar og einstaklingar 90 ára og eldri voru bólusettir þá viku.

Fréttin verður uppfærð.