Í gær greindust 62 með kórónaveirusmit innanlands en af þeim voru 33 ekki í sóttkví við greiningu. Alls eru nú 1.252 manns í einangrun með virkt smit en frá upphafi hafa 4.193 smit verið staðfest hér á landi.

Á spítala eru nú 25 inniliggjandi en þeim fækkar um tvo milli daga. Þrír af þeim sem eru nú á spítala eru á gjörgæslu.

Átta manns greindust með veiruna við landamæraskimun en þar af greindust fimm með virkt smit við seinni skimun. Beðið er mótefnamælingar úr hinum sýnunum.

Í sóttkví eru nú 2.375 manns en þeim fækkar um tæplega 500 milli daga. Í skimunarsóttkví eru nú 1.778 manns og fjölgar þeim um rúmlega hundrað milli daga.

Alls voru 645 einkennasýni tekin til greiningar í gær auk þess sem 694 sýni voru tekin við landamærin.