Alls greindist 61 kórónuveirusmit hér á landi í gær en það er óvenjuhátt miðað við síðustu daga. Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun greindust 25 smit á Akureyri í gær.

Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að rúmur helmingur, eða 35 einstaklingar, hafi verið í sóttkví við greiningu.

„Í allt eru nú 376 í einangrun og 1103 í sóttkví.  Rakningin á smitum gærdagsins gengur vel og nær hún helst til Norðurlands þar sem 25 smit greindust í gær. Smitin á Akureyri teygja anga sína um allt samfélagið en flest smitin tengjast inn grunnskólana en einnig inn í ýmist félagsstarf og íþróttaiðkun.“

Almannavarnir hvetja fólk til að fara í sýnatöku við minnstu einkenni því þannig og með einstaklingsbundnum sóttvörnum sé hægt að stöðva smitkeðjuna.