Af 600 far­þegum sem flugu til Amsterdam í gær frá Suður-Afríku greindust 61 þeirra með Co­vid-19. Frá þessu er greint á vef Reu­ters en hollensk yfir­völd hafa sent far­þegana í sér­stakar rann­sóknir til að kanna hvort að þau séu smituð af nýju af­brigði kórónu­veirunnar, Om­íkron.

Far­þegarnir komu til Amsterdam í tveimur flug­vélum á vegum KLM flug­fé­lagsins og þurftu í kjöl­farið að fara í fjölda prófa til að at­huga hvort að þau séu smituð af nýja af­brigðinu.

Hollensk yfir­völd bönnuðu snemma í gær, föstu­dag, allt flug til landsins frá Suður-Afríku. Heil­brigðis­ráð­herra landsins greindi frá því í kjöl­farið að allir sem koma til landsins frá Suður-Afríku þurfa að fara í víð­tækar rann­sóknir auk þess sem þau þurfa að fara í sótt­kví.

Far­þegar greindu frá því á sam­fé­lags­miðlum að þau hafi beðið klukku­stundum saman á flug­brautinni áður en þau voru sótt í rútu og flutti þau að flug­stöðinni þar sem þau þurftu að fara í rann­sóknir.

Nýtt af­brigði kórónu­veirunnar greinist nú um allan heim og hefur greinst í þó­nokkrum Evrópu­löndum. Fjöl­mörg lönd hafa brugðist við með því að banna flug frá Suður-Afríku.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, sagði í Frétta­blaðinu í dag að ekki væri til­efni til að setja nýjar tak­markanir á landa­mærunum vegna nýs af­brigðis.