Af 600 farþegum sem flugu til Amsterdam í gær frá Suður-Afríku greindust 61 þeirra með Covid-19. Frá þessu er greint á vef Reuters en hollensk yfirvöld hafa sent farþegana í sérstakar rannsóknir til að kanna hvort að þau séu smituð af nýju afbrigði kórónuveirunnar, Omíkron.
Farþegarnir komu til Amsterdam í tveimur flugvélum á vegum KLM flugfélagsins og þurftu í kjölfarið að fara í fjölda prófa til að athuga hvort að þau séu smituð af nýja afbrigðinu.
Hollensk yfirvöld bönnuðu snemma í gær, föstudag, allt flug til landsins frá Suður-Afríku. Heilbrigðisráðherra landsins greindi frá því í kjölfarið að allir sem koma til landsins frá Suður-Afríku þurfa að fara í víðtækar rannsóknir auk þess sem þau þurfa að fara í sóttkví.
Farþegar greindu frá því á samfélagsmiðlum að þau hafi beðið klukkustundum saman á flugbrautinni áður en þau voru sótt í rútu og flutti þau að flugstöðinni þar sem þau þurftu að fara í rannsóknir.
Nýtt afbrigði kórónuveirunnar greinist nú um allan heim og hefur greinst í þónokkrum Evrópulöndum. Fjölmörg lönd hafa brugðist við með því að banna flug frá Suður-Afríku.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í Fréttablaðinu í dag að ekki væri tilefni til að setja nýjar takmarkanir á landamærunum vegna nýs afbrigðis.