„Það er áhugavert að skoða það hversu fljótt fólk er að bregðast við og horfir bara á eina hlið málsins,“ segir Sigrún Valbergsdóttir, nýr forseti Ferðafélags Íslands, en við lokun skrifstofunnar í gærkvöldi var 61 meðlimur félagsins búinn að segja sig úr því. Núverandi tala meðlima í félaginu er um ellefu þúsund en Sigrún segir það sérstakt hversu fljótt sumir taki afstöðu.

„Það er mjög sérkennilegt að það sé ekki spurt spurninga,“ segir hún.

Ólga hefur verið innan félagsins síðan Anna Dóra Sæþórsdóttir, fyrrverandi forseti félagsins sagði af sér í gær en stjórn FÍ sendi frá sér ítarlega yfirlýsingu um málið fyrr í dag.

„Ég hef aðeins getað komið fram í fjölmiðlum til þess að útskýra fjölda mála og að það hafi verið á þeim tekið og þau hafi öll verið afgreidd,“ segir Sigrún sem tók við forsetaembættinu í gær. „Það var til áætlun og áætlun sem var enduruppfærð undir stjórn fráfarandi forseta og með þátttöku allrar stjórnarinnar og það var unnið samkvæmt henni,“ segir hún og bætir við: „Þetta var ekki málið. Þetta var ekki ásteytingarsteinninn en hann var í raun bara stjórn forseta sem ekki maktaði það að veita stjórninni forstöðu.“

Biður meðlimi að staldra við og hugsa málið

Sigrún biðlar því til meðlima Ferðafélagsins að staldra eilítið við og velta fyrir sér staðreyndum málsins. „Það er mjög góður hljómgrunnur í því að saka fólk um að stinga undir stól og hylma yfir kynferðislegu ofbeldi. Það er mjög góður hljómgrunnur. En gæti verið að þetta sé ekki satt ?“ spyr hún en Sigrún segir að engin opin mál séu nú innan Ferðafélags Íslands um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni.

„Það var tekið á öllum þessum málum og það var brugðust við og þau afgreidd,“ segir Sigrún og bætir við: „Það er mjög sorglegt þegar megin uppistaðan í afsögn forseta beinist að okkur sem ég tel nokkuð góða og gilda borgara í þessu samfélagi. Þar sem við erum látin líta út fyrir að hylma yfir kynferðisbrot. Það er bara hræðilegt, þetta er hræðileg ásökun,“ segir hún.