Talið er að fleiri en 60 hafi látist þegar rúss­neski herinn sprengdi upp skóla­byggingu í bænum Bilohori­vka í austur­hluta Úkraínu seinni­partinn í gær, laugar­dag. Utan­ríkis­ráðu­neyti Úkraínu hefur for­dæmt á­rásina á Twitter þar sem þau hafa birt mynd­skeið af rústum byggingarinnar.

Tvö dauðs­föll eru stað­fest en ríkis­stjórinn í Luhansk-héraði Serhi­y Gai­dai sagði í gær að lík­lega væru fleiri en um 90 manns höfðu leitað skjóls í skólanum.

Eftir að sprengjan féll á bygginguna kviknaði eldur sem umlauk bygginguna.

„Það tók nærri fjóra klukku­tíma að slökkva eldinn, svo voru rústirnar hreinsaðar upp og því miður fundust lík tveggja manneskja,“ skrifaði Gai­dai á Telegram. Hann bætti því við að þeim hefði tekist að losa 30 úr rústunum og af þeim hafi sjö verið slösuð. Lík­lega eru því 60 látin undir rústum byggingarinnar.

Greint er frá á vef Reu­ters en þar segir að þeim hafi ekki tekist að sann­reyna þessar full­yrðingar um fjölda and­láta.

Greint var frá því í gær að síðustu al­mennu borgararnir hefðu komist út úr Azovsta-stál­verk­smiðjunni en búist er við því að á morgun þegar eru liðin 77 ár frá sigri Sovét­ríkjanna yfir nas­ista­ríki Þýska­lands í seinni heims­styrj­öldinni muni for­seti Rúss­lands vilja nýta sér það tæki­færi til að ná yfir­höndinni í Úkraínu sem honum hefur ekki enn tekist.

Leið­togar G7 ríkjanna munu í dag funda sím­leiðis með for­seta Úkraínu til að sýna honum stuðning en lík­legt er að á morgun verði risa­stór her­sýning til heiðurs sigri Sovét­ríkjanna í Moskvu.

Frá því að stríðið hófst þann 24. Febrúar hafa milljónir þurft að flýja heimili sín og þúsundir látist. Sam­kvæmt nýjustu tölum sak­sóknarans í Kænu­garði hafa alls 225 börn látist í á­tökunum og 445 verið særð. Það inni­heldur ekki tölur um svæði þar sem enn er barist og því eru tölurnar lík­lega hærri.

For­seti Úkraínu, Volodimír Selenskíj, minntist þeirra sem létust í seinni heims­styrj­öldinni í á­varpi sem hann birti í morgun og var tekið upp í borginni Bor­o­dy­anka. Þar líkir hann inn­rás Rússa í landið við her­töku Nas­ista í seinni heims­styrj­öldinni og sýnir myndir af húsum í borginni sem er hafa engar hernaðar­legan til­gang en eru gjör­eyði­lögð.

Mynd­bandið er hægt að sjá hér að neðan.