Utan­ríkis­ráðu­neytið hefur til­kynnt um 60 milljóna króna fram­lag til mann­úðar­að­stoðar í Afgan­istan og verður fram­laginu skipt jafnt á milli Flótta­manna­stofnunar Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR) og Al­þjóða­ráðs Rauða krossins (ICRC).

Þetta kemur fram í til­kynningu frá utan­ríkis­ráðu­neytinu. Þar segir að báðar stofnanir hafi sér­stöðu á sínu sviði, einkum hvað varðar að­gengi og þjónustu við fólk á á­taka­svæðum.

„Átök hafa staðið yfir í Afgan­istan í rúm fjöru­tíu ár og hefur mann­úðar­á­stand lengi verið mjög slæmt. Fyrr á árinu á­ætluðu Sam­einuðu þjóðirnar að um helmingur af­gönsku þjóðarinnar, eða um 18,4 milljónir, hafi þurft nauð­syn­lega á mann­úðar­að­stoð að halda og að einn af hverjum þremur í­búum hafi búið við hungur. Þá eru hátt í þrjár milljónir manna á flótta innan­lands,“ segir í til­kynningunni.

Bent er á að í ljósi at­burða síðustu daga muni á­standið fara versnandi. Þá hafi Sam­einuðu þjóðirnar í­trekað mikil­vægi þess að mann­úðar­að­gerðir haldi á­fram í landinu. Loks muni skortur á fjár­magni til að veita lífs­bjargandi að­stoð hafa al­var­legar af­leiðingar í för með sér fyrir af­gönsku þjóðina.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, tók þátt í fjar­fundi utan­ríkis­ráð­herra At­lants­hafs­banda­lagsins þar sem farið var yfir stöðu mála í Afgan­istan. Í til­kynningu á vef Stjórnar­ráðsins er haft eftir Guð­laugi Þór að af­ganska þjóðin hafi fært miklar fórnir á síðustu 20 árum til að koma á friði og um­bótum, bæta öryggi, mann­réttindi, að­gengi að menntun og stöðu kvenna og stúlkna.

„Að­stoð al­þjóða­sam­fé­lagsins byggist á á­lyktunum öryggis­ráðs Sam­einuðu þjóðanna og hlut­verk At­lants­hafs­banda­lagsins undan­farin ár hefur verið að veita þjálfun og ráð­gjöf á sviði öryggis- og varnar­mála. Sú staða sem upp er komin í landinu er því á­fall og hætt við að kastað verði á glæ þeim fram­förum sem orðið hafa í landinu á þessum tíma.“