Í dag er ár liðið frá árás stuðningsfólks Donald Trumps Bandaríkjaforseta á þinghúsið í Washington D.C., þar sem fram fór sameiginlegur fundur beggja þingdeilda til staðfestingar á úrslitum forsetakosninganna 4. nóvember árið áður. Múgurinn freistaði þess að fá úrslitum forsetakosninganna hnekkt. Þar laut Repúblikaninn Trump í lægra haldi fyrir Demókratanum Joe Biden.
Að áeggjan Trumps hafði stuðningsfólk hans safnast saman í Washington og hélt hann ræðu skammt frá Hvíta húsinu um hádegisbil 6. janúar. Hann og stuðningsfólk hans voru sannfærð um að kosningunum hefði verið stolið af „öfgavinstri-demókrötum“ og „falsfréttafjölmiðlum.“

Fullyrðingarnar áttu ekki við nein rök að styðjast og þrátt fyrir að kosningar í mörgum ríkjum hafi verið grandskoðaðar hefur ekkert komið í ljós sem bendir til þess að kosningasvik hafi með nokkrum hætti haft áhrif á úrslit forsetakosninganna.
Margir sem þangað mættu aðhylltust einnig samsæriskenningar á borð við QAnon og tilheyrðu hópum hægriöfgamanna á borð við Proud Boys. Tugir mótmælenda voru á lista Alríkislögreglunnar um grunaða hryðjuverkamenn.

Í ræðu sinni hvatti Trump fólk til þess að ganga fylktu liði að þinghúsinu, og tókst því að lokum að brjóta sér leið þangað inn. Þinghúsið, og borgin öll, eru eitthvert mest vaktaða svæði í heimi, þar sem þúsundir þungvopnaðra lögreglumanna gæta öryggis kjarna bandarísks stjórnkerfis.
Er múgurinn braut sér leið inn í þinghúsið sátu báðar deildir þingsins á fundi í hvorum þingsal fyrir sig. Vopnaðir lögreglumenn gengu inn í öldungadeildina og byrgðu fyrir hurðir þingsalarins. Varaforsetinn Mike Pence var fluttur á brott af leyniþjónustumönnum.

Þingmenn leituðu sér skjóls er múgurinn gekk berserksgang um ganga þinghússins. Um klukkan 18 að staðartíma hafði lögreglu tekist að koma böndum á ástandið og koma múgnum út.

Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur og prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, hefur margsinnis heimsótt Washington D.C. og þinghúsið. Hún segir að sér hafi brugðið mjög að sjá atburðarásina í beinni á sjónvarpsskjánum.
„Að heyra fólk lýsa því að forsetinn hafi kallað það til, fólk sem virðist trúa því að það hafi verið að koma landinu sínu til bjargar, það sýnir hvað gjáin er orðin gríðarlega djúpstæð í bandarísku samfélagi.“

Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri Kom ráðgjafar, tekur í sama streng. Hvernig atburðirnir 6. janúar horfi við Bandaríkjamönnum, velti eingöngu á því hvaða flokk þeir styðji.
„Það fer algjörlega eftir því hvar í pólitík fólk stendur, hvaða augum það lítur atburðina. Meirihluti stuðningsmanna Repúblikana trúir því ekki að þetta hafi verið árás. Þeir trúa á alls konar aðrar samsæriskenningar, um að þetta hafi verið óeirðaseggir vinstrimanna í dulargervi, þetta hafi ekki verið árás og svo framvegis.“

Miklar líkur eru á að Repúblikanar beri sigur úr býtum í þingkosningum í haust og fái meirihluta í báðum deildum. Fulltrúadeild þingsins, þar sem Demókratar eru í meirihluta, rannsakar nú árásina. Silja Bára segir að ljúki henni ekki fyrir þingkosningar í haust, sé nánast sjálfgefið að henni verði hætt.
„Fyrir lýðræði Bandaríkjanna skiptir máli að sú nefnd ljúki störfum og þetta verði gert vel upp,“ segir Silja Bára. „Það er svo margt sem hefur ekki komið fram. Þetta er gríðarlega umfangsmikil alríkisrannsókn, stærsta sakamálarannsókn alríkisins held ég frá upphafi. Það er margt óljóst enn þá.“
