Í dag er ár liðið frá árás stuðnings­fólks Donald Trumps Banda­ríkja­for­seta á þing­húsið í Was­hington D.C., þar sem fram fór sam­eigin­legur fundur beggja þing­deilda til stað­festingar á úr­slitum for­seta­kosninganna 4. nóvember árið áður. Múgurinn freistaði þess að fá úr­slitum for­seta­kosninganna hnekkt. Þar laut Repúblikaninn Trump í lægra haldi fyrir Demó­kratanum Joe Biden.

Að á­eggjan Trumps hafði stuðnings­fólk hans safnast saman í Was­hington og hélt hann ræðu skammt frá Hvíta húsinu um há­degis­bil 6. janúar. Hann og stuðnings­fólk hans voru sann­færð um að kosningunum hefði verið stolið af „öfga­vinstri-demó­krötum“ og „fals­frétta­fjöl­miðlum.“

Tugir mót­mælenda voru á lista Al­ríkis­lög­reglunnar um grunaða hryðju­verka­menn.
Fréttablaðið/Getty

Full­yrðingarnar áttu ekki við nein rök að styðjast og þrátt fyrir að kosningar í mörgum ríkjum hafi verið grand­skoðaðar hefur ekkert komið í ljós sem bendir til þess að kosninga­svik hafi með nokkrum hætti haft á­hrif á úr­slit for­seta­kosninganna.

Margir sem þangað mættu að­hylltust einnig sam­særis­kenningar á borð við QA­non og til­heyrðu hópum hægri­öfga­manna á borð við Proud Boys. Tugir mót­mælenda voru á lista Al­ríkis­lög­reglunnar um grunaða hryðju­verka­menn.

Margir fóru ráns­hendi um þing­húsið.
Fréttablaðið/Getty

Í ræðu sinni hvatti Trump fólk til þess að ganga fylktu liði að þing­húsinu, og tókst því að lokum að brjóta sér leið þangað inn. Þing­húsið, og borgin öll, eru eitt­hvert mest vaktaða svæði í heimi, þar sem þúsundir þung­vopnaðra lög­reglu­manna gæta öryggis kjarna banda­rísks stjórn­kerfis.

Er múgurinn braut sér leið inn í þing­húsið sátu báðar deildir þingsins á fundi í hvorum þing­sal fyrir sig. Vopnaðir lög­reglu­menn gengu inn í öldunga­deildina og byrgðu fyrir hurðir þingsalarins. Vara­for­setinn Mike Pence var fluttur á brott af leyni­þjónustu­mönnum.

Er múgurinn braut sér leið inn í þing­húsið sátu báðar deildir hans á fundi.
Fréttablaðið/Getty

Þing­menn leituðu sér skjóls er múgurinn gekk ber­serks­gang um ganga þing­hússins. Um klukkan 18 að staðar­tíma hafði lög­reglu tekist að koma böndum á á­standið og koma múgnum út.

Stuðnings­menn Trump ganga fylktu liði um ganga þing­hússins.
Fréttablaðið/EPA

Silja Bára Ómars­dóttir, stjórn­mála­fræðingur og prófessor í al­þjóða­sam­skiptum við Há­skóla Ís­lands, hefur marg­sinnis heim­sótt Was­hington D.C. og þing­húsið. Hún segir að sér hafi brugðið mjög að sjá at­burða­rásina í beinni á sjón­varps­skjánum.

„Að heyra fólk lýsa því að for­setinn hafi kallað það til, fólk sem virðist trúa því að það hafi verið að koma landinu sínu til bjargar, það sýnir hvað gjáin er orðin gríðar­lega djúp­stæð í banda­rísku sam­fé­lagi.“

Silja Bára Ómars­dóttir, stjórnmálafræðingur og prófessor í al­þjóða­sam­skiptum við Há­skóla Ís­lands.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Frið­jón R. Frið­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Kom ráð­gjafar, tekur í sama streng. Hvernig at­burðirnir 6. janúar horfi við Banda­ríkja­mönnum, velti ein­göngu á því hvaða flokk þeir styðji.

„Það fer al­gjör­lega eftir því hvar í pólitík fólk stendur, hvaða augum það lítur at­burðina. Meiri­hluti stuðnings­manna Repúblikana trúir því ekki að þetta hafi verið árás. Þeir trúa á alls konar aðrar sam­særis­kenningar, um að þetta hafi verið ó­eirða­seggir vinstri­manna í dular­gervi, þetta hafi ekki verið árás og svo fram­vegis.“

Frið­jón R. Frið­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Kom Ráð­gjafar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Miklar líkur eru á að Repúblikanar beri sigur úr býtum í þing­kosningum í haust og fái meiri­hluta í báðum deildum. Full­trúa­deild þingsins, þar sem Demó­kratar eru í meiri­hluta, rann­sakar nú á­rásina. Silja Bára segir að ljúki henni ekki fyrir þing­kosningar í haust, sé nánast sjálf­gefið að henni verði hætt.

„Fyrir lýð­ræði Banda­ríkjanna skiptir máli að sú nefnd ljúki störfum og þetta verði gert vel upp,“ segir Silja Bára. „Það er svo margt sem hefur ekki komið fram. Þetta er gríðar­lega um­fangs­mikil al­ríkis­rann­sókn, stærsta saka­mála­rann­sókn al­ríkisins held ég frá upp­hafi. Það er margt ó­ljóst enn þá.“

Brotist var inn á skrif­stofur þing­manna.
Fréttablaðið/EPA