58 greindust með kórónu­veiruna innan­lands í gær. Af þeim voru 45 í sótt­kví eða 78 prósent. 13 voru hins vegar ekki í sótt­kví við greiningu.

Fjöldi nýrra smita í gær er að­eins minni en á föstu­dag en þá greindust 76 með veiruna innan­lands. Skýrðist sá mikli fjöldi meðal annars af hóp­sýkingu sem kom upp á Landa­kots­spítala og má ætla að ein­hver þeirra 58 smita sem greindust í gær megi einnig rekja til hennar.

Þrátt fyrir fjölda nýrra smita fækkar þeim veru­lega sem eru í ein­angrun síðan í gær. Alls eru nú 1.042 í ein­angrun en þeir voru 1.021 í gær. Þeim fjölgar ör­lítið sem eru í sótt­kví milli daga; voru 1.979 í gær en eru 2.049 í dag.

31 á sjúkrahúsi

31 eru nú á sjúkra­húsi með Co­vid-19 og fjórir á gjör­gæslu. Þetta er mikil fjölgun frá því í gær þegar 19 voru á sjúkra­húsi en hana má rekja til þeirra sjúk­linga sem greindust á Landa­kots­spítala í hóp­sýkingunni og voru fluttir í gær yfir á Land­spítalann í Foss­vogi.

Alls voru 1.413 sýni tekin á landinu í gær. Það er nokkuð svipaður fjöldi og síðustu vikuna en þó í minna lagi.

Ný­gengi innan­lands­smita á hverja 100 þúsund íbúa er á­fram rétt rúm­lega 227. Ný­gengi landa­mæra­smita helst einnig mjög svipað og í gær – 23,4.

Eitt landa­mæra­smit bættist við á landa­mærunum í gær en það greindist hjá ein­stak­lingi síðasta mið­viku­dag. Niður­stöður mót­efna­mælingar hans leiddu í ljós í dag að hann væri með virkt smit. Í gær greindist einn við landa­mærin en ó­víst er hvort hann sé með mót­efni.

Fréttin hefur verið uppfærð.