57 einstaklingar greindust með Covid-19 hér á landi í gær. Um helmingur þeirra sem greindust voru í sóttkví, eða 28 manns.

54 smit greindust í ein­kenna­sýna­tök­um, tvö í sótt­kví­ar- og handa­hófs­skimun og eitt hjá Íslenskri erfðagrein­ingu.

Beðið er eft­ir mót­efna­mæl­ingu vegna tveggja smita sem greind­ust á landa­mær­un­um en mót­efni var að finna í þriðja til­fell­inu.

Um er að ræða aukningu frá því í gær þegar 38 ein­staklingar greindust með veiruna. Tveir ein­staklingar eru nú inniliggjandi á Covid göngudeild Landspítalans.

Alls voru tekin 5.165 sýni í gær. 2.798 einkennasýni voru tekin hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær og 640 sýni á landamærunum eða í seinni landamæraskimun. Þá voru 1.291 sýni tekin í annarri skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu og 436 sýni tekin við sóttkvíar- og handahófsskimun. Aldrei hafa fleiri sýni verið tekin á einum sólarhring.

324 einstaklingar er í einangrun og 2.410 einstaklingar eru nú í sótt­kví. Þeim fjölgar um 127 frá því í gær þegar 2.283 voru í sóttkví. Frá því fyrsta smit greindist hér á landi hafa 2.476 ein­staklingar smitast af veirunni.