„Enginn er alvarlega veikur sem betur fer,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, um bæjarbúa Reyðarfjarðar sem hafa greinst með Covid-19 á síðustu dögum.

Alls eru sextán manns í bænum með Covid-19. Í gær voru 55 sýni tekin á Reyðarfirði og reyndust þau öll neikvæð. Sömuleiðis verða seinni sýnatökur fyrir einstaklinga í sóttkví í dag og á morgun og má búast við að hluti þeirra muni losna úr sóttkví.

„Maður dáist af Reyðfirðingum sem hafa sýnt þessu mikið æðruleysi og hafa verið duglegir að mæta í sýnatökur,“ segir Jón Björn.

Bæði leik- og grunnskólum hefur verið lokað en staðan verður aftur metin á miðvikudag eftir að niðurstöður berast úr seinni sýnatöku, hvort hægt verði að opna skóla á ný.

Jón Björn segir þau sem hafa greinst vera á öllum aldri.