Vinnumálastofnun greiddi út um 5,4 milljarða króna í atvinnuleysisbætur fyrir nýliðinn júnímánuð. Þar af voru 1,3 milljarðar vegna hlutabótaleiðarinnar. Þetta kemur fram í svörum stofnunarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Til samanburðar voru um 8,6 milljarðar greiddir út vegna maí, en rúmur helmingur fjárhæðarinnar þá, eða 4,4 milljarðar, var vegna hlutabóta.

Vinnumálastofnun hefur aldrei afgreitt fleiri umsóknir um atvinnuleysisbætur en undanfarnar vikur og mánuði.

„Þrátt fyrir það er afgreiðslutími stofnunarinnar í sumum málum of langur. Það má því segja að afgreiðsla á umsóknum hafi almennt gengið vel, en samt hefur ekki tekist að afgreiða allar umsóknir á viðunandi tíma,“ segir í svari Vinnumálastofnunar.

Brugðist hefur verið við stöðunni með enn frekari fjölgun starfsfólks sem sinnir úrvinnslu umsókna og móttöku gagna. Nærri allir einstaklingar sem hafa fengið umsóknir sínar samþykktar, hafa fengið greitt fyrir júní. Í svari stofnunarinnar segir að misræmi í skráningu, eða leiðrétting á tímabili, kunni í einhverjum tilvikum að tefja greiðslur.

Þrjár hópuppsagnir voru tilkynntar til Vinnumálastofnunar í júnímánuði. Alls misstu 147 manns vinnuna í þessum uppsögnum. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að þar með virðist sú hrina hópuppsagna sem hófst í tengslum við COVID-19, vera gengin niður.

Í hópuppsögnum síðustu mánaða misstu um 7.400 manns hjá 110 fyrirtækjum vinnuna. Stærsta hópuppsögnin í júní var hjá PCC á Bakka þar sem um 85 misstu vinnuna