Mikil aukning var í tilkynningum til barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar í apríl og helst hún í hendur við aukningu í marsmánuði.

Í apríl bárust nefndinni 67 tilkynningar vegna 52 barna og voru 20 ný mál í könnun.

Á sama tíma í fyrra voru tilkynningarnar 44 vegna 30 barna og fjöldi nýrra mála í könnun 10. Nemur aukningin því 52 prósentum milli ára.

Fram kom á fundi barnaverndar Reykjanesbæjar í dag að á árinu 2020 hafi orðið aukning í barnaverndartilkynningum er varðar vanrækslu umsjónar og eftirlits, áfengis og/eða fíkniefnaneyslu foreldra.

Frá janúar til apríl á þessu ári bárust 58 slíkar tilkynningar en á sama tíma árið 2019 voru þær 46 og jukustu því um 26 prósent.

Jafnframt kemur fram í gögnum nefndarinnar að á árinu 2020 hafi orðið aukning á barnaverndartilkynningum um heimilisofbeldi en frá janúar fram í apríl bárust 23 slíkar tilkynningar.

Á sama tíma í fyrra voru þær 14 talsins og því um að ræða 64 prósent aukningu milli ára.

Nú síðast í apríl bárust flestar tilkynningar til nefndarinnar frá lögreglu, foreldrum og ættingjum.

Fyrir mánuði var greint frá því að tilkynningum til barnaverndarnefndarinnar í mars á þessu ári hafi fjölgað um 43 prósent frá mánuðinum áður.

Þá kom fram að tilkynningar um heimilisofbeldi hefðu aukist í marsmánuði. Eftir að aðeins tvær tilkynningar um heimilisofbeldi í febrúarmánuði bárust nefndinni ellefu tilkynningar í mars.