Alls greindust 52 með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Af þeim sem greindust voru 36 með einkenni en 16 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. Flestir sem greindust voru í sóttkví en 16 voru utan sóttkvíar við greiningu.

Áfram eru flest smit þessa dagana meðal óbólusettra en rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindust í gær voru óbólusettir, eða 27, sem er þó örlítið lægra hlutfall en fyrri daga.

Alls eru nú 756 í einangrun með virkt smit og 1.657 í sóttkví. Færri sýni voru tekin innanlands í gær heldur en aðra daga vikunnar, eða ríflega 2.600 í heildina.

Á landamærunum greindust tvö smit, þar af eitt virkt, en beðið er mótefnamælingar úr einu sýni. Hátt í 900 sýni voru tekin við landamæraskimun í gær og eru nú 599 í skimunarsóttkví.

Tíu sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-sýkingar en enginn þeirra er á gjörgæslu. Í þessari bylgju faraldursins hafa þrír látist vegna Covid.