Opnað var fyrir um­sóknir um skert starfs­hlut­fall vegna CO­VID-19 far­aldursins á vef Vinnu­mála­stofnunar í dag en Al­þingi sam­þykkti síðast­liðinn föstu­dag frum­varp Ás­mundar Einars Daða­sonar, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, um rétt til at­vinnu­leysis­bóta vegna tíma­bundins sam­dráttar í starf­semi vinnu­veit­enda.

Um 500 um­sóknir hafa komið inn á hverjum klukku­tíma frá því að opnað var fyrir um­sóknir í há­deginu og voru heildar­um­sóknir í kringum fjögur þúsund talsins klukkan 16 í dag. Stefnt er á að greiða fyrstu greiðslurnar 31. mars næst­komandi en ein­hverjar greiðslur geta dregist fram í apríl. Um­sóknirnar gilda aftur­virkt frá 15. mars síðast­liðnum.

„Mark­miðið með laga­setningunni er ein­falt; stuðla að því að vinnu­veit­endur haldi ráðningar­sam­bandi við starfs­menn sína eins og frekast er unnt. Þessi miklu við­brögð sýna að þessar að­gerðir eru að virka og við ætlum að fara í gegnum þetta saman og að hér verði kröftug við­spyrna í þessum tíma­bundna á­standi sem far­aldurinn er,” sagði Ás­mundur Einar.

Hvetja fólk til að kynna sér úrræði

Fólk sem hefur verið í fullu starfi og farið niður í allt að 25 prósenta starfs­hlut­fall á rétt á bótum. Þá eiga þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðar­laun að fá fullar bætur á móti skertu starfs­hlut­falli. Sótt er um í gegnum mínar síður á heima­síðu Vinnu­mála­stofnunar.

„Það er fagnaðar­efni hversu hratt hefur gengið að vinna þetta verk­efni og það hefur verið mikið álag á vef Vinnu­mála­stofnunar frá því opnuðum fyrir um­sóknir í dag. Um­sóknirnar sem okkur hafa borist í dag eru fjöl­margar og við hvetjum bæði at­vinnu­rek­endur og launa­fólk til þess að kynna sér þessi úr­ræði vel,” sagði Unnur Sverris­dóttir, for­stjóri Vinnu­mála­stofnunar, um málið.