300-400 skammtar eru eftir af bóluefni Janssen gegn kórónaveirunni í Laugardalshöll. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni við Fréttablaðið.

Hafa nú allir verið boðnir velkomnir í höllina, vilji þeir freista gæfunnar til að fá bóluefnið. Áður hafði Ragnheiður hvatt þá sem fengið hafa boð til þess að mæta í bólusetningu. Ef ekki tekst að koma öllum skömmtunum út fara þeir til spillis.

Ragnheiður segist aðspurð ekki hafa áhyggjur af því að það muni ekki takast að koma skömmtunum út. Aldrei hafi hingað til þurft að henda skömmtum að degi loknum, þeir hafi ætíð klárast.

Allir þeir sem fengið hafa boð eru eins og áður segir hvattir til að mæta. Höllin er hálftóm sem stendur að sögn Ragnheiðar og því ætti að vera lítið mál fyrir fólk sem klárar vinnu kl. 17:00 að renna við í höllinni og næla sér í sprautu, hafi það fengið boð í dag.

Frétt uppfærð kl. 17:33:

Nú eru 300-400 skammtar eftir. Eru allir hvattir til að mæta, óþarfi er að vera með boð.