500 manns nýttu sér þjónustu fjöldahjálparstöðvar í í íþróttahúsinu Sunnubraut í Keflavík sem sett var upp fyrir þá sem sátu fastir í Leifsstöð vegna veðurs í gærkvöldi og nótt. Þar af gistu rúmlega 180. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum, en það var Icelandair og Rauði krossinn sem settu miðstöðina upp.

Öllu flugi Icelandair var aflýst í gærkvöldi vegna veðurs. Alls áttu ellefu flug að fara til Evrópu og Bandaríkjanna og skömmu eftir miðnætti sátu um fjögur þúsund fastir á flugvellinum. Flestir farþeganna sem gistu í fjöldahjálparstöðinni voru á leið í flug til Bandaríkjanna.

Stefnt er á að loka stöðinni um ellefu fyrir hádegi.