Frá og með deginum í dag mega 500 manns koma saman og verður sá há­marks­fjöldi í gildi til 5. júlí næst­komandi. Áður hafði há­marks­fjöldi miðast við að 200 manns mættu safnast saman.

Fólk er á­fram hvatt til að fylgja tveggja metra ná­lægðar­mörkum ef unnt er til að hefta útbreiðslu veirunnar. Leikskólar eru þó undanskildir þeirri reglu.


Landa­mæri Ís­lands voru einnig form­lega opnuð ferða­mönnum á ný. Far­þegar sem koma til landsins hafa nú val um að fara í sýna­töku eða sæta tveggja vikna sótt­kví.

Engar breytingar hjá sundlaugum og skemmtistöðum

Fjölda­tak­markanir í sund­laugum og líkams­ræktar­stöðvum verða á­fram þær sömu og verður að­eins leyfi­legt að hleypa 75 prósent af leyfi­legum há­marks­fjölda inn hverju sinni. Sú regla hefur verið í gildi frá 25. maí.

Engin breyting verður á opnunar­tíma veitinga- og skemmti­staða sem selja á­fengi og verður þeim stöðum á­fram gert að loka klukkan 23:00 á kvöldin. Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, sagði á dögunum að sér­stök smit­hætta fælist í því að hafa staði opna á nóttunni.