Til­slakanir á sótt­varnar­að­gerðum vegna CO­VID-19 taka gildi á laugar­dag. 500 mega koma saman ef þátt­tak­endur í við­burði fram­vísa niður­stöðum hrað­prófs. Tilslakanirnar eru gerðar eftir tillögum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis og gilda í þrjár vikur.

Ríkis­stjórnin fundaði um þetta í dag. Engar tak­markanir verða á sund­stöðum og líkams­ræktar­stöðvum. 200 mega koma saman á í­þrótta­æfingum og á veitinga­húsum og skemmti­stöðum.

Fjar­lægðar­reglan á sitjandi við­burðum mun falla úr gildi en grímu­skylda gilda á­fram. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að unnið sé að útfærslum á hraðprófunum og hvernig þeim verði háttað.

Svandís Svavarsdóttir ræddi við Fréttablaðið og útskýrði grímunotkun.

„Grímuskyldan sem stendur eftir er á sitjandi viðburðum en svo fer eftir hvort hægt sé að tryggja meters reglu og fullnægjandi loftræstingu. Þá tekur fólk afstöðu til þess hvort það noti grímu eða ekki. Verslanir hafa sett grímuskyldu sjálfar en annars er meginreglan að þetta byggi á mati hvers og eins en skylda á sitjandi viðburðum. Strætó og almenningssamgöngur eru áfram með grímuskyldu og eldri nemendur geta sleppt grímum sitjandi.“

„Aðferðafræði temprunar“ ákveðin á fundi ríkisstjórnar

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að unnið verði að unnið verði að útfærslu á 500 manna samkomum með hraðprófum næstu daga. Rætt er um tilslakanir og „aðferðafræði temprunar“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Segir að verður unnin í nánu samráði við þau sem standa fyrir stórum viðburðum.

Í tilkynningunni segir að temprun á útbreiðslu smita virðist ákjósanlegasta og ábyrgasta leiðin til þess að koma íslensku samfélagi smám saman úr hættuástandi vegna Covid-19. Segir þar að það feli í sér að í stað þess að bæla niður smit með hörðum aðgerðum eða leyfa veirusmitum að ganga óheftum yfir samfélagið er stefnt að því að viðhafa aðgerðir og ráðstafanir sem hægja á útbreiðslu veirunnar.

Þá segir jafnframt að aðferðin sé að verulegu leyti í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi. Stefnt er að því að aðferðafræði temprunar gildi í takmarkaðan tíma, nema alvarlegar breytingar verði á eðli faraldursins, til dæmis vegna nýrra afbrigða. Temprun smita felur í sér að tekin eru skref í átt að frekari opnun en álag vegna veikinda dreifist á lengra tímabil heldur en ef aðgerðir eru aflagðar í einu vetfangi.

Leið temprunar feli í sér sífellt minni takmarkanir

Þá segir í tilkynningunni að leið temprunar muni fela í sér sífellt minni takmarkanir, en þó verði litið til stöðu faraldursins hverju sinni. Áfram verði unnið með Landspítala að styrkingu spítalans til skemmri og lengri tíma.

„Samhliða styrkingu heilbrigðiskerfisins til þess að bregðast við alvarlegum veikindum, örvunarbólusetningu þeirra hópa sem líklegastir eru til að veikjast alvarlega og öðrum aðgerðum sem þörf er á, er það sýn stjórnvalda að leið temprunar feli í sér sífellt minni takmarkanir eftir því sem ónæmi og mótstöðuþrek vex,“ segir í tilkynningunni.

Þannig verði smám saman unnt að draga úr kröfum um sýnatöku, sóttkví og einangrun, fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar, grímunotkun verði gerð valkvæð, áhersla aukin á einstaklingsbundna smitgát og sérstakar takmarkanir á opnunartíma veitinga- og skemmtistaða verði afnumdar í áföngum.

Að lokum segja stjórnvöld að eftir því sem lífið færist í sitt fyrra horf verði minni þörf fyrir ýmsar mótvægisaðgerðir af efnahagslegum og vinnumarkaðslegum toga. „En úrræði eins og átakið hefjum störf, framlenging á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, viðspyrnu- og lokunarstyrkir og greiðsla launa í sóttkví munu áfram styðja við fólk og fyrirtæki sem verða fyrir tekjumissi.“

Fréttin hefur verið uppfærð.