Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir mælir gegn rýmkun reglna um hámarksfjölda á fjöldasamkomum á Íslandi.

Til stendur að hækka fjöldatakmarkanir úr 500 upp í 2.000 og á það að taka gildi á mánudaginn næstkomandi þann 13. júlí. Þórólfur sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að hann muni mæla gegn því.

„Reglurnar eru núna fimm hundruð manna hámark og ég tel óráðlegt að auka það að sinni,“ sagði hann og telur nauðsynlegt að halda 500 manna hámarki út ágústmánuð.

Skipuleggjendur sumarhátíða hafa vonast eftir hækkun fjöldatakmarkanna en verða nú að aðlaga áform sín að þessum takmörkunum, verði af þessum tilmælum sóttvarnarlæknis.