Komið hefur í ljós að yfir fimm hundruð til­vik CO­VID-19 kóróna­veirunnar hafa til þessa greinst í fangelsum í Kína. Á síðast­liðnum sólar­hring var til­kynnt um 271 smitaða ein­stak­linga innan fangelsis­stofnanna landsins.

Yfir­völd hafa ekki til­greint hve­nær smitin áttu sér stað en gáfu út yfir­lýsingu um að af þeim rúm­lega 270 sýnum sem hefðu verið greind hafi 220 til­vik verið innan kvenna­fangelsisins í Hubei héraði Kína. For­stjóri fangelsisins hefur verið rekin.

Í Rencheng fangelsinu í Shandong héraði greindust 200 fangar og sjö fanga­verðir með veiruna í gær.

Talningaraðferð nýsmita hefur verið breytt tvisvar sinnum á síðustu viku.
Fréttablaðið/Getty

Breytt talningar­að­ferð

Kín­versk heil­brigðis­yfir­völd til­kynntu í gær að talningu ný­smita hafi verið breytt. Ný­smit væru einungis talin eftir að búið væri að rann­saka blóð­sýni úr fólki. Þetta er í annað skipti á rúmri viku sem að­ferð talningarinnar er breytt. Mun færri ný­smit hafa greinst á síðustu dögum og er þetta að öllum líkum á­stæða þess.

Þegar talningar­að­ferðinni var breytt í fyrra skipti voru smit sem greindust með öðrum klínískum að­ferðum en blóð­sýni talin með sem varð til þess að fjöldi ný­smitaðra jókst um 15 þúsund á einum sólar­hring.

Alls hafa tæp­lega 77 þúsund greinst með veiruna og tæp­lega 19 þúsund náð bara. Um 2247 hafa látist af völdum sjúk­dómsins þar af 118 á síðast­liðnum sólar­hring.