Allt að 50 manns mega koma saman samkvæmt nýrri reglugerð sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt. Nýjar reglur taka gildi á morgun og gilda í þrjár vikur með fyrirvara.

Ráðherrar ræddu tillögur sóttvarnalæknis um tilslakanir á fundi ríkisstjórnar í dag og ræddu svo við blaðamenn að fundi loknum. Reglugerðin verður birt í heild sinni í dag.

Áfram tveir metrar

Áfram verður tveggja metra regla og grímuskylda. Gert er ráð fyrir að heimila allt að 200 manns í tiltekinni starfsemi; á söfnum, sviðslistaviðburðum og íþróttaviðburðum þar sem hægt er að tryggja einn meter milli sæta.

Á veitingastöðum mega allt að 50 gestir koma inn til klukkan 22:00 en rýma þarf staðina klukkan 23:00.

150 í skólum

Reglur varðandi sóttvarnarráðstafanir í skólum verða rýmkaðar og meira staðnám á háskólastiginu. Þetta staðfestir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Allt að 150 mega koma saman í skólum og gildir það um öll skólastig. Ef ekki verður hægt að uppfylla eins metra reglu ber að hafa grímu.

Þessar reglur taka gildi frá og með morgundeginum og gilda fram á vor. Skólayfirvöld hafa þegar fundað með ráðherra.

„Þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Lilja þegar hún greindi frá rýmkuðum reglum í skólum.