Deilan á milli Danmerkur og Kanada, sem oftast er kölluð Viskístríðið, er loks lokið eftir 51 ár. Ríkin tvö deildu um það hvoru ríkinu Hans eyja í Norður-Íshafi tilheyrði. Ríkin komust saman að þeirri niðurstöðu að skipta ætti eyjunni upp. BBC greinir frá þessu.
Eyjan, sem er rétt rúmur einn ferkílómetri að stærð og er óbyggð, hefur verið ástæða deilunnar frá árinu 1971 og fékk nafn sitt „Viskístríðið“ vegna þess að aðilar á vegum beggja ríkjanna skiptust á því að fara til eyjunnar og skilja eftir viskíflöskur til þess að lýsa því yfir að eyjan tilheyrði þeim.
Eyjan liggur 18 kílómetra frá bæði Kanada og Grænlandi, því geta bæði ríkin [Kanda og Danmörk] lýst því yfir að eyjan tilheyri þeim samkvæmt alþjóðasamningum.
„Stríðið“ hófst árið 1971 þegar löndin komu saman til að leysa landamæradeilur í Naressundi, þar sem eyjan liggur. Tveimur árum síðar voru landamæri teiknuð í gegnum sundið en bæði ríkin vildu að eyjan tilheyrði þeim.
Það var því til þess að ríkin skiptust á því að flytja viskíflöskur til eyjunnar. Árið 1984 skildu Kanadamenn eftir viskíflösku sem bar mynd af hlynslaufi, einskonar þjóðarmerki Kanada.
Danir svöruðu þessu með því að sigla með snafs frá Kaupmannahöfn til eyjunnar. Sú flaska bar danska fánann. Með flöskunni var skilinn eftir miði, á honum stóð „Velkomin til danskrar eyju.“
Það var ekki fyrr en árið 2018 þegar ríkin stofnuðu til nefndar sem átti að leysa úr málunum. Niðurstaða nefndarinnar, sem kynnt var í vikunni, var að skipta ætti eyjunni til helminga en skrifað verður undir samninginn þegar bæði þing ríkjanna hafa samþykkt samninginn.