Samkvæmt nýrri könnun Prósents hefur ríkisstjórnin bætt við sig fylgi en er þó fallin naumlega. Samanlagt bæta stjórnarflokkarnir við sig nærri 5 prósentum og munar mestu um fylgisaukningu Framsóknarflokksins.

Þrír flokkar eru stærstir og bæta allir við sig. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,5 prósent sem er 0,6 prósentum meira en í síðustu könnun Prósents, frá 27. apríl. Þá koma Píratar sem mælast með 17,5 sem er bæting um 1,3 prósent og Framsóknarflokkurinn með 17,3 sem er bæting um 4,9 prósent.

Fjórir flokkar tapa fylgi. Samfylkingin missir 3,3 prósent og mælist nú með 13,5 og Vinstri Græn tapa 0,6 prósentum og mælast með slétt 9. Viðreisn mælist með 7,8 prósent, 1,8 prósenti minna en síðast, og Flokkur fólksins tapar 2,2 prósentum og mælist með 5,6.

Sósíalistar bæta við sig tæpu prósenti og mælast nú með 6,3 sem myndi duga inn á þing en flokkurinn náði ekki yfir 5 prósenta þröskuldinn í þingkosningunum í haust. Miðflokkurinn stendur nokkurn veginn í stað með 4,2 prósent en er undir þröskuldi. Í kosningunum fékk Miðflokkurinn 3 kjörna en missti 1 til Sjálfstæðisflokks strax eftir þær.

Samkvæmt könnun Prósents mælast stjórnarflokkarnir þrír með 30 þingsæti, en hafa 38 í dag. Þetta myndi ekki duga til meirihluta en er þó bæting um 4 þingsæti frá síðustu könnun.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndu fá 12 þingmenn og Vinstri græn 6. Píratar myndu fá 12 menn, Samfylking 9, Viðreisn 5, Sósíalistaflokkurinn 4 og Flokkur fólksins 3.

Lítill munur er á svörum eftir kynjum. Helsti munurinn er hjá Vinstri grænum sem hafa stuðning 12 prósent kvenna en aðeins 7 prósent karla. Viðreisn höfðar aftur á móti frekar til karla, 10 prósent á móti 5.

Framsóknarflokkurinn er áberandi stærsti flokkurinn á landsbyggðinni samkvæmt könnuninni og hefur 29 prósenta fylgi. Það er nærri tvöfalt fylgi næst stærsta flokksins, Sjálfstæðisflokksins sem hefur 15 prósenta stuðning á landsbyggðinni.

Flokkurinn hefur hins vegar aðeins 13 prósenta stuðning á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru Sjálfstæðismenn og Píratar jafn stórir með 20 prósent hvor flokkur. Líkt og Píratar hefur Samfylking mun meiri stuðning á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni, 15 prósent á móti 10, en stærð flestra annarra flokka er álík eftir búsetu.

Könnunin var netkönnun framkvæmd 2. til 13. júní. Úrtakið var 1780 einstaklingar og svarhlutfallið 50,1 prósent.

Fylgi flokkanna 13. júní