Hönnunarsjóður úthlutaði um 50 milljónum krónum í aukaúthlutun sjóðsins til átaksverkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs í dag.

49 verkefni hlutu styrk að þessi sinni en alls bárust 276 umsóknir um styrki þar sem sótt var um 520 milljónir.

Árangurshlutfall umsækjenda er 18 prósent en sjóðnum hefur ekki borist slíkur fjöldi umsókna frá stofnun hans 2013.

100 hönnuðir og arkitektar standa á bak við þessi 49 fjölbreyttu verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni og fjármagnið snertir með beinum eða óbeinum hætti um 300 manns.  Verkefnin endurspegla grósku ólíkra greina og fjármagnið dreifðist á marga staði.

Verkefni styrkþega fjalla meðal annars um grænar áherslur og sjálfbærni, samfélagsleg verkefni sem lúta að auknu samstarfi og nýjum áherslum, rannsóknir og verkefni sem snúast um aukna framleiðslu á Íslandi, nýtingu auðlinda og viðskiptalegar áherslur.            

Hönnunarmiðstöð Íslands útbjó myndband í tilefni dagsins:

Aukaúthlutun í Hönnunarsjóð 2020 from Iceland Design Centre on Vimeo.

Grænspor hlaut hæsta styrkinn

Hæsta einstaka styrkinn, 2.500.000 krónur, hlaut að þessu sinni verkefnið Grænspor í átt að sjálfbærari byggingariðnaði en markmið verkefnisins er að hanna og þróa gagnagrunn, hugbúnaðarlausn og þjónustugrunn fyrir grænni byggingariðnað. Styrkþegar eru Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Svala Jónsdóttir og Berglind Ómarsdóttir.

Þörfin fyrir öflugan Hönnunarsjóð er mikil

Hönnunarsjóði var falin úthlutunin samkvæmt þingsályktun um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs vegna Covid-19. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar og nýsköpunar segist fagna þeirri áherslu á nýsköpun og skapandi lausnir sem er einkennismerki þessarar úthlutunar úr Hönnunarsjóði.

„Nú gildir að leita nýrra lausna við þeim áskorunum sem blasa við.“

Hægt er að skoða heildarlista yfir styrkþega hér.