Frá því um 9. apríl hefur verið slökkvi­lið um allt land sinnt 46 út­köllum um gróður­elda samkvæmt gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Flestum hefur þeim verið sinnt af slökkvi­liði höfuð­borgar­svæðisins, eða alls 22. Það er 47 prósent. Þau eru flest á 13 daga tíma­bili frá síðustu mánaða­mótum.

Slökkvi­lið hefur á Hvols­velli og Hellu sinnt fjórum út­köllum. Bruna­varnir Ár­nesinga hafa sinnt fjórum, Bruna­varnir Suður­nesja sinnt sjö (Reykja­nes­bær). Auk þess hefur verið sinnt út­köllum á Egils­stöðum (2) , Skaga­firði (2), Akur­eyri (2), Reyk­hólum (1) Akra­nes og Hval­fjarðar­sveit (2).

Í dag er ó­vissu­stig vegna hættu á gróður­eldum á Norður­landi vestra og hættu­stig vegna hættu á gróður­eldum frá Breiða­firði að Eyja­fjöllum.

„Þetta er sprenging,“ segir Jón Viðar Matthías­son, slökkvi­liðs­stjóri á höfuð­borgar­svæðinu.

Hann segir að síðast þegar slökkvi­liðið sinnti svo mörgum út­köllum á svo stuttum tíma vegna gróður­elda hafi það verið árið 2016, í apríl.

Síðustu 13 daga hefur slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sinnt 22 útköllum vegna gróðurelda.
Fréttablaðið/Valli

Miklir þurrkar en gróður einnig lítið kominn til

Spurður hvort að það skipti máli að gróður sé ekki farinn að laufga al­menni­lega segir Jón Viðar að hættuna stafi af mörgum þáttum í bland.

„Það talar allt saman en aðal­á­hrifa­valdurinn er að gróðurinn er svo lítið kominn til , hversu snemma í ári þetta er og þessi mikli þurrkur í um fjórar vikur. Það kom smá rigning í gær en fyrir höfuð­borgar­svæðið, sem dæmi, hefur það voða­lega lítið að segja. Það er kannski smá á­vinningur af því í stuttan tíma en það sem er í kortunum er á­fram­haldandi þurrkar. Þessi litla rigning sem er komin mun ekki breyta neinu þannig lagað fyrir höfuð­borgar­svæðið,“ segir Jón Viðar.

Hann segir að lang­flestir hlýði fyrir­mælum en að slökkvi­liðið, sveitar­fé­lögin, skóg­ræktin og aðrir sem komi að þessu hafi þurft að grípa inn í og stöðva grill­veislur á við­kvæmum svæðum en segist vonast til þess að fólk sé búið að átta sig núna.

„Þetta er graf­alvar­leg staða,“ segir Jón Viðar.

En við þurfum að vera extra-passa­söm. Að kveikja upp í arninum fyrir kósí­heit er bara ekki í boði núna. Það geta komið neistar úr skor­steini sem berast með vindi og detta niður ein­hvers staðar í gróður

Veðuröfgar meiri: Ný hætta

Hann segir að þau hafi lent í þurrkum áður en segir að það hafi ekki verið svona lengi og ekki svona af­gerandi.

„Staðan hér á landi og út um allan heim er þannig að það eru svo miklir öfgar í veðrinu. Ef það eru skoðaðar ó­veður­stil­kynningar þá hefur þeim líka fjölgað líka og þetta er auð­vitað ekkert annað en ó­veður, bara í öðrum skilningi. Best væri eitt­hvað jafn­vægi, en þetta er ekkert jafn­vægi,“ segir Jón Viðar.

Hann segir að þótt svo að til­kynningarnar hafi borist frá Norður­landi líka hafi til­fellin ekki orðið eins slæm því þurrkurinn hafi ekki verið eins slæmur þar.

„Þetta er ný hætta og hætta sem hefur verið að vaxa. Öfgarnar eru orðnir meiri í öllu og það er eitt­hvað sem við þurfum öll að taka með í reikninginn,“ segir hann.

Ekki í boði að hafa kósý hjá arninum

Hann segir að al­menningur geti kynnt sér helstu for­varnir og ráð­stafanir sem mikil­vægt er að gera inn á www.grodur­eldar.isog á vef Al­manna­varna en að það sé mikil­vægt að hafa í huga að þegar eldurinn kviknar þá er það yfir­leitt ó­við­ráðan­legt fyrir al­menning.

„Menn verða að passa að það má ekki vera með eld ná­lægt gróðri. Það má ekki nota hand­verk­færi sem geta myndað neista, það má ekki skjóta frá sér sígarettunni,“ segir Jón Viðar og segir að þau hafi lent í til­vikum þar sem fólk var að losa sig við sígarettu sem það taldi sig hafa drepið í en var það ekki.

„Það eru alls­konar ó­vilja­þættir sem koma inn í þetta. Ég trúi ekki að það sé ein­hver viljandi að kveikja gróður­eld þótt það geti komið fyrir. En við þurfum að vera extra-passa­söm. Að kveikja upp í arninum fyrir kósí­heit er bara ekki í boði núna. Það geta komið neistar úr skor­steini sem berast með vindi og detta niður ein­hvers staðar í gróður,“ segir Jón Viðar.

Þetta er það við­kvæmt?

„Já, þetta er það. Það þarf ekkert til,“ segir Jón Viðar.

Hann segir að fólk verði að hafa það í huga að ef það sér reyk þá verður það til­kynna það.

„Það getur vel verið að þú sért fyrsti aðili sem sér reykinn. Bara hringja. Þetta er hér og nú,“ segir hann á­kveðinn að lokum.