Lík 46 einstaklinga uppgötvuðust í tengivagni flutningabíls í Texas í gær. Sextán til viðbótar voru flutt á spítala til aðhlynningar. Bíllinn fannst á fáförnum vegi í suðvestur af borginni San Antonio.
Talið er að bíllinn hafi verið nýkomið yfir landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. Þá þykir líklegt að hiti og vatnsleysi hafi spilað inn í dauðsföllin. Þau sem flutt voru á spítala voru heit viðkomu og uppþornuð.
Borgarstarfsmaður hringdi á lögreglu eftir að hafa heyrt kallað eftir aðstoð. Lögreglufólk fann lík á jörðinni fyrir utan vagninn en hliðið að vagninum var hálfopið. Ekkert vatn var í vagninum og engin loftkæling heldur.
Hættulegt ferðalag yfir landamærin
Þrír einstaklingar hafa verið teknir í varðhald en lögreglustjórinn, William McManus, segir óvíst hvort þeir hafi átt hlut að mansali. Talið er líklegt að flutningabíllinn hafi verið notaður til að smygla fólkinu yfir landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.
Fjöldi fólks hefur áður dáið við að ferðast yfir landamærin en þessi harmleikur er einn sá mannskæðasti sem orðið hefur á svæðinu á undanförnum áratugum. Í San Antonio dóu tíu manns árið 2017 sem voru föst í flutningabíl fyrir utan matvöruverslun. Árið 2003 fundust 19 látin í flutningabíl suðaustur af borginni.
Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, Alejandro Mayorkas, staðfesti á Twitter að rannsókn væri hafin í málinu. Hann segist harmi sleginn yfir dauðsföllunum. „Allt of margir hafa látist þegar einstaklingar – þeirra á meðal fjölskyldur, konur og börn – leggja í þennan hættulega leiðangur,“ skrifar hann meðal annars.