Lík 46 ein­stak­linga upp­götvuðust í tengi­vagni flutninga­bíls í Texas í gær. Sex­tán til við­bótar voru flutt á spítala til að­hlynningar. Bíllinn fannst á fá­förnum vegi í suð­vestur af borginni San Antonio.

Talið er að bíllinn hafi verið ný­komið yfir landa­mæri Mexíkó og Banda­ríkjanna. Þá þykir lík­legt að hiti og vatns­leysi hafi spilað inn í dauðs­föllin. Þau sem flutt voru á spítala voru heit við­komu og upp­þornuð.

Borgar­starfs­maður hringdi á lög­reglu eftir að hafa heyrt kallað eftir að­stoð. Lög­reglu­fólk fann lík á jörðinni fyrir utan vagninn en hliðið að vagninum var hálf­opið. Ekkert vatn var í vagninum og engin loft­kæling heldur.

Hættulegt ferðalag yfir landamærin

Þrír ein­staklingar hafa verið teknir í varð­hald en lög­reglu­stjórinn, Willi­am McManus, segir ó­víst hvort þeir hafi átt hlut að man­sali. Talið er lík­legt að flutninga­bíllinn hafi verið notaður til að smygla fólkinu yfir landa­mæri Mexíkó og Banda­ríkjanna.

Fjöldi fólks hefur áður dáið við að ferðast yfir landa­mærin en þessi harm­leikur er einn sá mann­skæðasti sem orðið hefur á svæðinu á undan­förnum ára­tugum. Í San Antonio dóu tíu manns árið 2017 sem voru föst í flutninga­bíl fyrir utan mat­vöru­verslun. Árið 2003 fundust 19 látin í flutninga­bíl suð­austur af borginni.

Heima­varna­ráð­herra Banda­ríkjanna, Alejandro Mayorkas, stað­festi á Twitter að rann­sókn væri hafin í málinu. Hann segist harmi sleginn yfir dauðs­föllunum. „Allt of margir hafa látist þegar ein­staklingar – þeirra á meðal fjöl­skyldur, konur og börn – leggja í þennan hættu­lega leið­angur,“ skrifar hann meðal annars.