45 einstaklingar greindust með COVID-19 innanlands í gær og þar af voru 28, eða rúmur helmingur, í sóttkví við greiningu.

Tveir eru nú innlagðir á sjúkrahús með COVID-19 og hefur sjúklingum fjölgað um einn. Nýgreindum tilfellum fjölgar milli daga en 33 innanlandssmit greindust daginn áður. 341 ný innanlandstilfelli hafa bæst við síðustu tíu daga.

Þrír voru með jákvætt sýni við landamæraskimun í gær og bíða niðurstöðu mótefnamælingar. Þá reyndust þrír vera með virkt smit í fyrri skimun á miðvikudag og tveir á þriðjudag.

Fækkar í sóttkví

400 einstaklingar eru nú í einangrun með virkt smit hér á landi og fjölgar um 48 milli daga. 2.362 eru í almennri sóttkví og fækkar um 124. 1.685 einstaklingar eru í skimunarsóttkví.

Nýgengi innanlandssmita, það er ný smit síðustu tvær vikur á hverja 100.000 íbúa fer hækkandi og er nú 103,1. Sú tala hefur verið á stöðugri uppleið frá 13. september síðastliðnum þegar nýgengi mældist 11,2.

Alls voru 2.724 sýni tekin í gær og stendur heildarsýnafjöldi nokkurn veginn í stað. Þar af voru 1.365 einkennasýni, 494 landamærasýni, 689 vegna sóttkvíar- og handahófsskimunar og 176 vegna skimunar á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Alls hafa 618 smit greinst innanlands frá og með 15. júní síðastliðin og 132 virk smit á landamærum. 2.561 staðfest tilfelli hafa greinst frá því að faraldurinn hófst hér á landi.

Vona að bylgjan sé á niðurleið

„Við erum að sjá þessa daglegu sveiflur í fjölda smita en við vonum að bylgjan sé á niðurleið og við erum alla vega ekki að sjá veldisvöxt sem við myndum auðvitað að sjá ef faraldurinn fengi að ganga óheftur,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi í gær.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja til að krár og skemmtistaðir fái að opna að nýju næstkomandi mánudag, 28. september. Þó verði gerðar ákveðnar kröfur um hámarksfjölda gesta og ýmsan aðbúnað á stöðunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.