Að minnsta kosti 45 eru látnir í Búlgaríu, þar á meðal 12 börn, eftir að rúta brann til kaldra kola nærri þorpinu Bo­snek, suð­vestur af höfuð­borginni Sofíu, í nótt.
Til­kynnt var um slysið klukkan tvö í nótt að staðar­tíma, en rútan, sem var skráð í Norður-Makedóníu, var á leið frá Tyrk­landi til Búlgaríu þegar slysið varð. Til­drög slyssins eru ó­ljós og beinist rann­sókn meðal annars að því hvort öku­maður rútunnar hafi misst stjórn á henni áður eða eftir að eldurinn kom upp.

Sjö komust lífs af frá slysinu og voru þeir fluttir á sjúkra­hús með bruna­sár.

Í frétt BBC kemur fram að Zoran Zaev, for­sætis­ráð­herra Norður-Makedóníu, hafi rætt við einn af þeim sem komust lífs af úr slysinu. Sagði við­komandi að far­þegar hafi verið sofandi þegar þeir vöknuðu skyndi­lega við mikla sprengingu.

„Honum og nokkrum öðrum tókst að brjóta rúðu og koma sér út,“ sagði Zaev við búlgarska fjöl­miðla í morgun.