Í heildina greindust 44 með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Af þeim sem greindust voru 40 með einkenni en fjórir greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. Minna en helmingur var í sóttkví við greiningu en 25 voru utan sóttkvíar.

Alls eru nú 524 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um 20 milli daga. Þá eru 897 í sóttkví en þeim fækkar einnig um rúmlega 30 milli daga. Færri sýni voru tekin í gær heldur en í fyrradag en í heildina voru rétt rúmlega vö þúsund sýni tekin innanlands í gær.

Fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa er nú 190,1 en það hefur ekki farið undir 200 frá 26. júlí síðastliðnum. Þegar hæst á stóð í fjórðu bylgjunni var nýgengi rúmlega 433,6.

Í fyrradag greindust 37 einstaklingar með veiruna en meirihluti þeirra sem greindust voru óbólusettir. Af þeim sem greindust voru 22 utan sóttkvíar. Var það í fyrsta sinn frá 28. ágúst síðastliðnum sem minna en helmingur greindra einstaklinga voru í sóttkví við greiningu.

Á landamærunum greindust þrjú smit í gær, sami fjöldi og í fyrradag þar sem þrjú virk smit greindust, en ekki liggur fyrir hvort um virkt smit sé að ræða í gær þar sem beðið er eftir mótefnamælingu úr þeim sýnum. Hátt í 1.100 sýni voru tekin við landamærin í gær og eru nú 523 í skimunarsóttkví.

Landspítalinn af hættustigi

Á Landspítala eru nú sjö sjúklingar inniliggjandi, þar af einn á gjörgæslu, en sá fjöldi helst sá sami milli daga.

Landspítali starfar nú á óvissustigi, fyrsta af þremur viðbragðsstigum, en spítalinn var tekinn af hættustigi í gær. Hættustigi var lýst yfir þann 23. júlí síðastliðinn þegar fjórða bylgja faraldursins var byrjuð að sækja í sig veðrið.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala í gær voru þá 543 sjúklingar, þar af 221 barn, í eftiliti hjá Covid-göngudeild spítalans. Enginn var þar metinn rauður en sex voru gulir og þurftu því nánara eftirlit. Nýjar upplýsingar verða birtar síðdegis.

Tilslakanir í kortunum

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands gildir í rúma viku til viðbótar, eða til miðnættis föstudaginn 17. september næstkomandi, en þar er kveðið á um 200 manna samkomubann, eins metra reglu og grímuskyldu innandyra. Þó eru rýmri reglur er varðar viðburði og skólahald.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni að í ljósi þess að faraldurinn væri á hægri niðurleið þá væru tilslakanir í kortunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það væri þó mikilvægt að fara hægt í allar tilslakanir til að forðast bakslag.

Fréttin hefur verið uppfærð.