Lögreglan á Suðurnesjum fékk 42 kynferðisbrotamál inn á borð hjá sér í fyrra en gagnavarsla hefur nýst við að upplýsa kynferðisafbrotamál. Ellefu af nítján netglæpamálum tengdust Facebook og Bland.is í fyrra. Þetta kemur fram í ársskýrslu embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum sem var birt fyrir nokkru. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.

42 tilkynningar um kynferðisbrot

Lögreglan á Suðurnesjum fékk 42 tilkynningar um kynferðisafbrotamál í fyrra, þar af átta nauðganir.

„Einn viðamesti þáttur rannsóknardeildarinnar eru rannsóknir kynferðisbrota sem geta verið flóknar, tímafrekar og erfiðar. Þær reyna oftar en ekki á andlega hlið rannsakarans,“ segir í ársskýrslunni.

Rafræn gagnavarsla í tölvum, farsímum, minnislyklum og í „skýjum“ nýtist við að upplýsa kynferðisbrotamál segir í tilkynningu lögreglustjórans. Lögreglunni gefst þannig kostur á að rekja ferlið með mjög afmörkuðum hætti. 

Lögreglustjórinn hefur sett sér það markmið að ljúka rannsókn forgangsmála á innan við 60 daga.

Netglæpir á bland.is og Facebook

Á árinu 2018 komu upp hjá lögreglunni á Suðurnesjum nítján mál sem flokka má undir netglæpi; brot sem framin eru með tilstuðlan internetsins.
Þrjú málanna eru svokallaðir svikapóstar þar sem óprúttnir aðilar hafa sent tölvupósta í nafni yfirmanns fyrirtækis til starfsmanns, sem hefur aðgang að fjármálum viðkomandi fyrirtækis, í þeim tilgangi að reyna að svíkja út fé.

Ellefu mál um fjársvik á netinu voru tilkynnt sem tengdust bland.is og Facebook.

Eitt mál er varðar áreiti á samfélagsmiðlum kom upp og fjögur mál sem varða dreifingu á nektarmyndum.