Lyfjastofnun Íslands hefur alls borist 41 tilkynning vegna aukaverkana við bólusetningu gegn COVID-19, þar af eru 36 ekki taldar alvarlegar. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar var gestur á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

Hún segir að líkt og með öll bóluefni þá sé eðlilegt að þeim fylgi vægar og skaðlausar aukaverkanir sem eigi að ganga til baka á fáeinum dögum. Algeng dæmi um slíkar aukaverkanir eru til dæmis óþægindi á stungustað, þreyta, höfuðverkur, verkir, hrollur og hiti.

„Þessar vægu aukaverkanir eru til marks um það að bóluefnið er að gera það sem því er ætlað, að virkja ónæmiskerfið og undirbúa það til að gera geta síðan varist þeim vágesti sem ætlunin er að verjast hverju sinni," segir Rúna.

Líkt og greint var frá í vikunni hafa fjórir einstaklingar sem höfðu nýlega verið bólusettir með bóluefni Pfizer látið lífið hér á landi. Verið er að rannsaka hvort tengsl eru á milli bóluefnisins og þeirra andláta sem hafa orðið.

Rúna segir að alvarlegar aukaverkanir af bóluefnum séu sjaldgæfar. Eftir fyrstu lotu bólusetningar í lok síðasta árs bárust Lyfjastofnun engu að síður tilkynningar um fimm mögulega alvarlegar aukaverkanir af bóluefni gegn COVID-19 og þar af voru fjögur andlát. Þessi tilfelli vörðuðu aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunarheimilum.

„Það eru ekki augljós tengsl milli þessara aukaverkana eða bólusetninga vegna undirliggjandi sjúkdóma viðkomandi einstaklinga. Engu að síður þarf að skoða þetta mál til hlítar og hefur Lyfjastofnun í samstarfi við Embætti Landlæknis og sóttvarnalækni því sett af stað rannsókn óháðra aðila á því að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik. Eins og sakir standa bendir ekki til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli. Þess ber að geta að hópurinn sem var bólusettur í fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða í dagdvöl," segir Rúna.

Þá bendir hún að að jafnaði látist átján einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum í hverri viku.