Um 400 Þjóðverjar bíða um borð í Norrænu sem hefur ekki getað lagst að bryggju vegna hvassviðris.

Gul og appelsínugul viðvörun er í gildi víða um landið í allan dag en athygli vekur að ekki er í gildi viðvörun á Seyðisfirði.

Rúnar Gunnarsson yfirhafnavörður segir erfitt að leggja svona stóru skipi að bryggju í hvassviðri, Norræna taki á sig svo mikinn vind að það megi ekki út af bregða.

„Hún lónar hér fyrir utan og bíður þetta af sér,“ segir Rúnar í samtali við Fréttablaðið. Hann segist stærsta hluta farþega vera Þjóðverja sem koma með rútum með Viking Cruises til að taka hringinn um Austfirði og fara aftur út á morgun. Hann segir farþegana mega búast við því að bíða til hádegis.

„Þau ætla að reyna aftur eftir klukkan 12, veðrið er að ganga niður.“

Seyðisfjörður er ekki inni í viðvörun Veðurstofunnar.
Mynd: Veðurstofa Íslands

Rúnar telur að það hefði verið skynsamlegt að hafa viðvörun, sérstaklega í ljósi sögunnar. Bæjarbúar lentu í krefjandi aðstæðum í janúar þegar mikið óveður skall á en þá var hreinsunarstarf eftir aurskriðurnar enn í fullum gangi.

„Við vorum ekki með gula viðvörun en það hefði verið skynsamlegast að hafa viðvörun hér í ljósi sögunnar. Það er búið að vera svo gott veður í sumar að fólk gengur bara út frá því að það sé alltaf gott veður. Við erum náttúrulega paradís hér á Seyðisfirði, segir Rúnar og hlær.