Stuðningur við einkarekna fjölmiðla verður mjög áþekkur því sem mælt var fyrir um í reglugerð um slíkan stuðning sem veittur var í sumar vegna rekstrarvanda fjölmiðla í heimsfaraldrinum. Þetta má leiða af frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðning við einkarekna fjölmiðla, sem lagt var fram á Alþingi í kvöld.
Samkvæmt frumvarpinu getur rekstrarstuðningur við einkarekinn fjölmiðil numið að hámarki 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda en við ákvörðun um fjárhæð rekstrarstuðnings skal meðal annars litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið á undan, ásamt útgáfutíðni.
Stuðningur til hvers umsækjanda getur þó ekki orðið hærri en sem nemur tuttugu og fimm prósent af fjárveitingu til verkefnisins en í frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs frá 1. janúar 2021 verði allt að 400 milljónir króna verði frumvarpið að lögum. Meðtalinn er kostnaður við úrvinnslu umsókna og þóknun vegna starfa úthlutunarnefndar.

Líkt og í fyrra frumvarpi er gert ráð fyrir að stuðningur til allra umsækjenda skerðist í jöfnum hlutföllum. Verði heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað lægri en fjárveitingar til verkefnisins skiptast afgangsfjármunir milli umsækjenda í réttum hlutföllum við kostnað þeirra.
Ekki er kveðið á um tiltekið hámark stuðningsgreiðslu til hvers umsækjanda í krónum talið, líkt og í fyrra frumvarpi ráðherra þar sem gert var ráð fyrir að hver miðill gæti ekki fengið hærri greiðslu á ársgrundvelli en sem nemi 50 milljónum króna. Hins vegar er, eins og fyrr segir, kveðið á um að hver miðill geti ekki fengið hærri styrk en sem nemur 25 prósentum af heildarfjárhæðinni sem varið er til stuðnings við fjölmiðla á ári hverju, en gert er ráð fyrir að kostnður af lögunum verði um 400 milljónir króna á næsta ári.
Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn á föstudaginn og hefur verið í kynningu hjá þingflokkum stjórnarflokkana. Gera má ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir frumvarpinu á Alþingi í vikunni.

Fréttablaðið er í eigu Torgs ehf. sem rekur einkarekna fjölmiðla og getur haft fjárhagslega hagsmuni af samþykkt frumvarpsins.