Stuðningur við einka­rekna fjöl­miðla verður mjög á­þekkur því sem mælt var fyrir um í reglu­gerð um slíkan stuðning sem veittur var í sumar vegna rekstrar­vanda fjöl­miðla í heims­far­aldrinum. Þetta má leiða af frum­varpi Lilju Al­freðs­dóttur mennta- og menningar­mála­ráð­herra, um stuðning við einka­rekna fjöl­miðla, sem lagt var fram á Al­þingi í kvöld.

Sam­kvæmt frum­varpinu getur rekstrar­stuðningur við einka­rekinn fjöl­miðil numið að há­marki 25 prósent af stuðnings­hæfum rekstrar­kostnaði um­sækjanda en við á­kvörðun um fjár­hæð rekstrar­stuðnings skal meðal annars litið til launa, fjölda starfs­manna og verk­taka­greiðslna vegna miðlunar á fréttum og frétta­tengdu efni á rit­stjórnum árið á undan, á­samt út­gáfu­tíðni.

Stuðningur til hvers um­sækjanda getur þó ekki orðið hærri en sem nemur tuttugu og fimm prósent af fjár­veitingu til verk­efnisins en í frum­varpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að kostnaður ríkis­sjóðs frá 1. janúar 2021 verði allt að 400 milljónir króna verði frum­varpið að lögum. Með­talinn er kostnaður við úr­vinnslu um­sókna og þóknun vegna starfa út­hlutunar­nefndar.

Heimild:Fjölmiðlafrumvarpið

Líkt og í fyrra frum­varpi er gert ráð fyrir að stuðningur til allra um­sækj­enda skerðist í jöfnum hlut­föllum. Verði heildar­fjár­hæð sam­þykktra um­sókna um stuðnings­hæfan rekstrar­kostnað lægri en fjár­veitingar til verk­efnisins skiptast af­gangs­fjár­munir milli um­sækj­enda í réttum hlut­föllum við kostnað þeirra.

Ekki er kveðið á um tiltekið hámark stuðnings­greiðslu til hvers umsækjanda í krónum talið, líkt og í fyrra frum­varpi ráð­herra þar sem gert var ráð fyrir að hver miðill gæti ekki fengið hærri greiðslu á árs­grund­velli en sem nemi 50 milljónum króna. Hins vegar er, eins og fyrr segir, kveðið á um að hver miðill geti ekki fengið hærri styrk en sem nemur 25 prósentum af heildarfjárhæðinni sem varið er til stuðnings við fjölmiðla á ári hverju, en gert er ráð fyrir að kostnður af lögunum verði um 400 milljónir króna á næsta ári.

Frum­varpið var sam­þykkt í ríkis­stjórn á föstu­daginn og hefur verið í kynningu hjá þing­flokkum stjórnar­flokkana. Gera má ráð fyrir að ráð­herra mæli fyrir frum­varpinu á Al­þingi í vikunni.

Heimild:Fjölmiðlafrumvarpið

Fréttablaðið er í eigu Torgs ehf. sem rekur einkarekna fjölmiðla og getur haft fjárhagslega hagsmuni af samþykkt frumvarpsins.